Orð og tunga - 01.06.2009, Qupperneq 47
Ásta Svavarsdóttir og Veturliði Óskarsson: Annarleg sprek ...
37
ar Vesturevrópumenn þekktu takmarkað til annarra heimshluta, og
nú á dögum getur enska ótvírætt talist „heimsmál" með tilliti til póli-
tískrar stöðu sinnar og útbreiðslu, ekki síst sem alþjóðlegt samskipta-
mál (lingua franca). Áhrif miðlágþýsku á íslensku á 14. og 15. öld bár-
ust að vísu að verulegu leyti gegnum önnur norræn mál, en þau voru
sjálf mál samfélaga sem voru stærri og valdameiri en hið íslenska og
það breytir ekki því að yfir öllu gnæfði heimsmálið. Af þessum sökum
eru þetta þau mál sem á viðkomandi tíma er eftirsóknarverðast að ná
valdi á og þótt þau séu ekki síst notuð í ýmiss konar viðskiptum þá
miðla þau um leið nýjum siðum, fyrirbærum og hugtökum.
Eigi að síður eru aðstæður ólíkar um margt á þessum tveimur
tímaskeiðum. Á 14. og 15. öld berast áhrifin eftir tveimur, tiltölulega
skýrt aðgreindum leiðum. Annars vegar er það við bein munnleg sam-
skipti milli Islendinga og þeirra útlendinga sem helst áttu erindi til
landsins — á fyrri hluta tímabilsins Skandinava sem miðla hinum lág-
þýsku áhrifum en þegar líður á 15. öld e.t.v. einnig þýskra kaupmanna
sem tóku að venja komur sínar til landsins upp úr 1470. Hins vegar
berast áhrifin í gegnum ritmálið, t.d. með þýðingum og bréfaskriftum,
og vert er að hafa í huga að á hansatímanum er prentöld ekki gengin
í garð. Nú á dögum eru tengslin fjölþættari og áhrifin geta því borist
eftir fleiri leiðum. Bein munnleg samskipti eru ekki eina snerting ís-
lendinga við enskt talmál og ætla má að ensk áhrif berist ekki síður í
gegnum miðla eins og útvarp, sjónvarp, kvikmyndir o.fl. og almenn-
ingur hefur greiðan aðgang að margbreytilegum textum á ensku, s.s.
bókum, blöðum, tímaritum, vefsíðum o.fl. Ætla má að á 14. og 15. öld
hafi bein tengsl við útlendinga takmarkast við tiltölulega lítil svæði og
fáa einstaklinga, þ.e.a.s. verslunarstaðina og þá sem þar störfuðu eða
komu þangað til að sinna viðskiptum. Einnig er líklegt að textar á lág-
þýsku eða með miklum lágþýskum áhrifum, t.d. opinber skjöl, versl-
unarbréf o.þ.h., hafi einkum komið fyrir augu embættismanna, kaup-
manna og þeirra sem störfuðu fyrir þá þótt t.d. þýðingar þar sem gætti
lágþýskra áhrifa hafi sjálfsagt náð meiri útbreiðslu. Þessu er ólíkt far-
ið með ensku á síðustu árum og áratugum. Erfitt gæti reynst að finna
þann Islending sem ekki kemst daglega í snertingu við ensku, t.d. í
sjónvarpi eða á netinu, þótt fólk heyri, sjái og noti ensku mismikið,
m.a. eftir því við hvað það starfar.10 Loks má nefna að ef það er rétt,
10í nýlegri könnun sagðist um helmingur aðspurðra íslendinga hafa notað ensku
„flestalla daga" eða „oft á dag" vikuna á undan (talað, lesið eða skrifað) en aftur á