Orð og tunga - 01.06.2009, Síða 87
Kristján Árnason: Að bera sér orð í munn
77
Það eru allt önnur sjónarmið sem ráða því til dæmis hvenær taka beri
tökuorð inn í leiðbeinandi orðabækur, eins og t.d. Stafsetningarorðabók
íslenskrar málnefndar.
Til skilnings á þeim hlutum sem hér um ræðir er að mörgu að
hyggja. M.a. er nauðsynlegt að huga að félagslegum þáttum og stíl,
og að almennum lögmálum sem fræðimenn hafa þóst sjá að gildi um
máltengsl og sambúð mála og málafbrigða. Meðal verka sem um þetta
fjalla er hið klassíska verk Uriels Weinreich, Languages in contact (1953).
í bók sinni fjallar Weinreich um smitun milli tungumála (interference),
allt frá hljóðkerfi til orðaforða. (Hann talar um phonic interference, sem
kalla mætti hljóðsmitun, grammatical interference, sem kalla mætti
beygingarsmitun eða kerfissmitun, og lexical interference, orðsmitun,
þ.e. flutning orða á milli mála.) Það sem gerist þegar enskt orð er
notað í íslensku samhengi er einhvers konar smitun frá ensku til ís-
lensku.3
Og þegar „slettur" í texta ganga svo langt að heilu segðirnar eða
setningarnar eru á öðru máli en því sem lagt var upp með hefur ver-
ið talað um málvíxl (code-switching). Þetta er vel þekkt í innflytjenda-
málum í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem í samtölum eða ræðu er
skipt milli innflytjendamáls og ensku. Ekki hafa mér vitanlega farið
fram miklar rannsóknir á málvíxlum eða málblöndun hjá íslenskum
innflytjendum til Ameríku (sbr. þó Kristínu M. Jóhannsdóttur 2006),
en spyrja má hvort greina beri enskunotkun í íslensku samhengi sem
málvíxl af þessu tagi.
Efni og skipulag þessarar greinar er þannig að fyrst er fjallað nokk-
uð almennt um máltengsl og þætti sem hafa verður í huga þegar þau
eru greind (2. kafli). í 3. kafla er fjallað um það hvernig tökuorð aðlag-
ast viðtökumálinu, en í 4. kafla er fjallað um áhrif á tökumálið. Á eftir
þessu fylgir stuttur lokakafli með ályktunarorðum.
3Til fróðleiks um þessa hluti má benda á rit eins og Coulmas (ritstj.): The Handbook
of Sociolingiástics (1997), þar sem fjallað er um hluti eins og málvíxl (code-switching),
máltengsl og blendingsmál (pidgin) og málhvarf og úrkynjun (attrition, degeneration),
en allt þetta eru þættir sem tengjast nánu sambandi tungumála þar sem annað er mun
stærra en hitt, eins og reyndin er um íslensku og ensku á okkar tímum.