Orð og tunga - 01.06.2009, Page 131
Baldur Jónsson: Klambrar saga
121
Forna-Klambra er nú með öllu horfin. Þórður í Skógum segist
muna eftir leifum af henni sem dálítilli mishæð eða torfu, en laust
fyrir 1960 gekk Kaldaklifsá þar yfir og sópaði burt þeim bæjarleif-
um sem eftir voru. Þar voru engar mishæðir í landslagi sem bentu til
þrengsla eða kvíar, ekki heldur þar sem Klambra er nú, austan árinn-
ar og nokkru norðar. Þarna eru engir klettar eða kennileiti sem land
jarðarinnar hefir afmarkast af, ekkert nema flatneskja.7 En landþröngt
hefir verið þar eigi að síður, eins og fram kemur í jarðabók Arna og
Páls.
Skýringin á upphaflega nafninu er líklega sú að jörðin hefir verið í
klömbur af völdum vatnagangs.
Klambra hin yngri, austan ár, er nú ekki lengur nýtt sem bújörð,
en þar var stundaður búskapur fram á síðari hluta 20. aldar.
Gamla heitið Klömbur var enn notað í Jarðabók 1696 (sjá Hannes
Þorsteinsson 1923:15), einnig í manntalinu 1703 (og viðbæti 1729) og í
jarðabók Árna og Páls (1709). í bæjanafnaþulu úr Eyjafjallasveit, sem
þar er birt sem athugagrein með jarðabókinni, er bærinn einnig nefnd-
ur Klömbur. Brot úr þulunni hljóðar svo (13:470):
Skýri ég ei frá bæjunum fleirum, Miðbæli og Leirum. Hól-
ar og Hörðuskálar haskast til Klömbur. Byrja ég óð um
Bakkakot.
Svo er að sjá sem nafnið Klömbur sé þarna í nefnifalli og sé eftirsett
frumlag með sögninni haskast til. Orðalagið „haskast til Klömbur" ætti
þá að merkja 'senn bætist Klömbur við' eða eitthvað þvíumlíkt. Um
aldur þulunnar skal ekki fullyrt, en rök munu fyrir því, að hún sé frá
16. öld.8 Um sögnina haska eða haskast eru engar gamlar heimildir (sbr.
ÁBIM u. haska), en hún er þekkt úr nútímamáli, einkum í sambandinu
haska sér 'flýta sér'. Fólk hefir ekki skilið þetta orðalag er frá leið.9
Þessar heimildir benda ekki til annars en gamla bæjarnafnið Klömb-
ur hafi haldist fram á 18. öld. En líklega fer það að hörfa, þegar líður
7Hér er vísað í símtal við Þórð Tómasson í Skógum, 16. apríl 2003. Sjálfur kom ég
á þessar slóðir 6. júní 2004 og sá ummerki með eigin augum. Þar hitti ég tvo „heima-
menn", sem staðfestu frásögn Þórðar, Sigurð Björgvinsson á Stóru-Borg, og Ingvar
Sigurjónsson frá Klömbru.
8Þórður í Skógum hefir í samtölum við mig sagst álykta þetta af nöfnum bæja sem
síðar fóru í eyði.
9Þórður í Skógum sagði mér í fyrrnefndu símtali að fólk, sem fór með þessa þulu,
hefði sagt: „hark, hark í Klömbru", í stað „haskast til Klömbur".