Orð og tunga - 01.06.2009, Side 133
Baldur Jónsson: Klambrar saga
123
fellið tvívegis nefnt og heitir þá í bæði skiptin Klömbrufell.n Á örnefna-
lista Jóhannesar Ásgeirssonar (1896-1983) er ekkert Klambrafell, held-
ur Klömbrufell.12 Árni Björnsson þjóðháttafræðingur (1997:199 o.v.), frá
Þorbergsstöðum í Laxárdal, nefnir einungis Klambrafell, eins og venja
hefir verið, í lýsingu sinni á þessum slóðum. Myndin Klömbrufell er
því að líkindum nýlega til komin, ef til vill í leiðréttingar skyni til sam-
ræmis við örnefnin Klömbrumýri og Klömbruskál sem kunn eru þar um
slóðir.
Heitið Klömbrumýri er á báðum örnefnaskránum. Á skrá Ara Gísla-
sonar er mýrin reyndar kynnt þannig (bls. 6): „Fyrir framan Réttarhóla
er mýri, sem heitir Klambrumýri [svo]". Þessi orðmynd stenst auðvit-
að ekki, en af þessu eina dæmi verður ekki séð hvort ætlunin var að
skrifa Klambramýri eða Klömbrumýri. Það skýrist á bls. 7: „Fyrir of-
an og framan Klömbrumýri, sem fyrr er nefnd [!]". Mýrin heitir líka
Klömbrumýri á lista Jóhannesar Ásgeirssonar og í árbókarlýsingu Árna
Björnssonar 1997. Á uppdrætti sem henni fylgir (bls. 193), er nafnið
reyndar í fleirtölu, Klömbrumýrar, en forliðurinn er ávallt klömbru-.
Varla fer milli mála að Klömbru-nöfnin í Haukadal í Dalasýslu eru
sams konar myndanir og klömbrukjálki, sem rætt var um í fyrri hluta
Klambrar sögu (sjá Baldur Jónsson 2008:75-77). Þegar fram liðu stund-
ir, gleymdist mönnum gamla beygingin á orðinu klömbur. I stað þess
var komið fleirtöluorðið klömbrur þegar á 17. öld, og á síðustu öld-
um litu menn á klömbur og klömbrur sem tvö afbrigði af sama fleir-
töluorðinu. Þegar samsett orð voru mynduð af þeim, var forliðurinn
hafður klömbru- og gat jafnvel komið í stað eldri forliðar, klambra- eða
klambrar-, eins og þegar Klambrafell er orðið Klömbrufell á síðari hluta
20. aldar. Þessa þróun má nánast lesa úr heimildunum frá Haukadal,
þar sem hún blasir við (sbr. Baldur Jónsson 2008:86nm.).
2.5 Klömbur í Aðaldal
Elsta heimild um þetta bæjarnafn er samsetta orðið „klambrarland"
í máldaga Grenjaðarstaðarkirkju í Auðunarmáldaga 1318 (DI 2:431).
Bærinn hefir heitið Klömbur og heitir svo enn.
uNafnið stendur þá í þágufalli, Klömbrufelli, en fallbeyging á ekki að hafa áhrif á
forliðinn.
12Skráin er ódagsett. Jóhannes var frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal, bjó um skeið í
Þrándarholti í Laxárdal, en var síðast innheimtumaður í Reykjavík og stundaði fræði-
störf (sjá Dalamenn 1:397).