Læknablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 25
LÆKNAblaðið 2016/102 285
R A N N S Ó K N
Miðað var við marktektarmörk p<0,05 og gögn voru greind með
StataIC11.
Niðurstöður
Alls fóru 214 sjúklingar í skurðaðgerð í svæfingu eða slævingu á
rannsóknartímabilinu og uppfylltu 193 (90%) þeirra þátttökuskil-
yrði. Útfylltir spurningalistar bárust frá 166 sjúklingum af þeim
sem uppfylltu þátttökuskilyrði (86%). Meirihluti sjúklinga (83%)
kom af biðlista í valaðgerð. Konur voru 60% og meðalaldur þátt-
takenda var 52 (± 17,8) ár. Flestir sjúklingar (65%) fóru í aðgerð fyr-
ir hádegi (tafla I). Síðasti komutími sjúklings að kvöldi á móttöku
skurðstofu var klukkan 20:45.
Lengd föstu
Sjúklingar föstuðu að meðaltali í 13,6 (± 3,0) klukkustundir á mat
og 8,8 (± 4,5) klukkustundir á tæra drykki. Einn sjúklingur fastaði
í 6 klukkustundir á mat og 5 sjúklingar (4%) föstuðu í tvær klukku-
stundir á tæra drykki, eins og leiðbeiningar kveða á um. Sjúk-
lingar sem fengu upplýsingar samkvæmt gildandi leiðbeiningum,
skriflega og munnlega, ásamt upplýsingum um mikilvægi föstu
föstuðu á mat í 11,9 (± 2,3; n=12) klukkustundir og á drykk í 7,7 (±
4,4; n=11) klukkustundir.
Ráðleggingar um lengd föstu og mikilvægi hennar.
Um fjórðungi (27%) sjúklinga var ráðlagt að fasta eins og leiðbein-
ingar kveða á um og 45% hafði verið ráðlagt að fasta frá miðnætti
á bæði mat og drykk. Fimmtungur (21%) sjúklinga merkti við tvo
valkosti, að fasta á mat og drykk frá miðnætti og að fasta sam-
kvæmt gildandi leiðbeiningum. Helmingur þeirra sem merkti við
tvo valkosti gaf þá skýringu að þeim hefði verið ráðlagt að fasta á
mat frá miðnætti og á drykk í tvær klukkustundir. Annars konar
leiðbeiningar fengu 8% sjúklinga.
Skriflegar og munnlegar upplýsingar fengu 45% sjúklinga, 37%
fengu aðeins munnlegar og 18% aðeins skriflegar.
Tæplega helmingur sjúklinga (46%) fékk upplýsingar um mikil-
vægi föstu, 45% fékk þær ekki og 9% mundu ekki (eða vissu ekki)
hvort þeir hefðu fengið slíkar upplýsingar.
Samband föstulengdar við aldur, kyn, aðkomu og tímasetningu aðgerðar.
Bráðasjúklingar föstuðu að meðaltali tveimur klukkustundum
lengur á mat (15,5 ± 4,7) en sjúklingar af vallista (13,4 ± 2,6) (p<0,005)
og tveimur og hálfri klukkustund lengur á tæra drykki (11,1 ± 6,4 á
móti 8,5 ± 4,1) (p<0,05). Þegar allir sjúklingar eru skoðaðir, kemur í
ljós að eftirmiðdagssjúklingar fasta þremur klukkustundum leng-
ur á mat (15,8 ± 3,2) en morgunsjúklingar (12,7 ± 2,5) (p<0,001) og
liðlega tveimur klukkustundum lengur á drykki (10,5 ± 5,5 á móti
8,2 ± 3,8) (p=0,008). Þegar aðeins valaðgerðasjúklingar (n=128) eru
skoðaðir eru niðurstöður sambærilegar; eftirmiðdagssjúklingar
fasta marktækt lengur, bæði á mat (p<0,001) og drykk (p=0,033)
(tafla II). Tafla III sýnir tímalengd föstu (miðgildi og kvaðratabil)
og tengsl föstu við aðkomu og tíma aðgerðar.
Mynd 1 sýnir samanburð á lengd matarföstu umfram gildandi
leiðbeiningar á milli morgunsjúklinga og eftirmiðdagssjúklinga
sem fóru í valaðgerðir. Mynd 2 sýnir sambærilegar upplýsingar
um lengd föstu á tæra drykki.
Meirihluti morgunsjúklinga (65%) sem fór í valaðgerð og allir
eftirmiðdagssjúklingar föstuðu að minnsta kosti 6 klukkustund-
um lengur á mat en gildandi leiðbeiningar sögðu til um (mynd
1). Svipaða sögu er að segja um föstu á drykk (mynd 2): 76%
morgunsjúklinga föstuðu að minnsta kosti tveimur klukkustund-
um lengur en nauðsynlegt var og 39% föstuðu að minnsta kosti
8 klukkustundum lengur en þörf var á. Samsvarandi tölur fyrir
eftirmiðdagssjúklinga voru 88% og 54%.
Hvorki var tölfræðilega marktækur munur á tímalengd föstu
(mat eða drykk) milli kynja né eftir aldri.
Samband föstulengdar og ráðlegginga
Sjúklingar sem fengu upplýsingar samkvæmt gildandi leiðbein-
ingum föstuðu að meðaltali 1,4 klukkustundum skemur á mat
en hinir (p=0,011). Þeir föstuðu einnig 1,1 klukkustund skemur
á drykki þó að sá munur hafi ekki verið tölfræðilega marktækur
(p=0,193). Hvorki var marktækur munur á meðallengd föstu á mat
né drykk eftir því hvort sjúklingar fengu upplýsingar um mikil-
vægi föstu eða ekki.
Samband föstulengdar og forms upplýsinga
Þeir sjúklingar sem fengu bæði munnlegar og skriflegar upplýs-
ingar föstuðu að meðaltali 2,6 klukkustundum skemur á drykki en
þeir sem fengu annaðhvort munnlegar eða skriflegar upplýsingar
(p<0,001) en ekki var munur milli þessara hópa að því er varðar
matarföstu (p=0,262).
Þorsti og ógleði
Meirihluti sjúklinga (75%) fann fyrir þorsta meðan á föstu stóð og
var meðalgildi þorsta hjá þeim 3,4 (± 2,3). Jákvæð fylgni var á milli
þorsta og lengdar föstu á mat (rho=0,248; p=0,006) en ekki á milli
þorsta og föstu á drykk (rho=0,006; p=0,953).
Fimmtungur (21%) sjúklinga fann fyrir ógleði eftir skurðað-
gerðina og var ekki samband á milli ógleði og tímalengdar föstu.
Tafla I. Upplýsingar um úrtak (n = 193).
Breytur n (%)
Kyn
konur
karlar
116 (60)
77 (40)
Aðkoma
valaðgerð
bráðaaðgerð
161 (83)
32 (17)
Koma á svæfingadeild
fyrir hádegi (til og með 11:29)
eftir hádegi (frá og með 11:30)
126 (65)
67 (35)
Aldur
meðalaldur í árum (staðalfrávik)
aldursspönn
53 (17,8)
18-96