Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.03.2000, Blaðsíða 62
Þankastrik
Þankastrik er fastur dálkur í blaðinu og höfundur hvers pistils stingur upp á þeim næsta. í Þankastriki gefst
hjúkrunarfræðingum færi á að tjá sig um ýmislegt sem varðar hjúkrun og er þeim hjartfólgið. Þistlarnir geta
fjallað um ákveðin málefni, sögur af kynnum við sjúklinga eða starfsfóik, eitthvað sem hefur orðið höfundum
til hugljómunar eða hvaðeina annað sem tengist starfinu og hugmyndafræði þess. Arndís Jónsdóttir, sem
skrifaði Þankastrik síðasta blaðs, skoraði á Hrund Helgadóttur sem tekur hér upp þráðinn.
\5"uolí'biS im sÁUvte'tviS
Hrund Helgadóttir
Það er áberandi hversu brennandi áhuga hjúkrunarfræðingar
hafa á sálrænum og andlegum málefnum. í umræðunni um
hjúkrun hefur mér þó oft þótt þessum hugtökum vera ruglað
saman og því hef ég í huga mínum aðgreint þau. Þegar ég fjalla
um sálræn málefni þá á ég við sálarfræði sem byggir á vísindum
og tengist ýmsum greinum, s.s. líffræði, mannfræði og félags-
fræði. Andleg málefni eru hins vegar allt það sem tilheyrir trú og
trúarbrögðum, einnig það sem er fyrir ofan og utan okkur og sést
ekki eða finnst í hinum efnislega heimi, sem sagt ekki vísindi.
Nám til B.A. prófs í sálarfræði er viðamikið og byggist á
endalausum rannsóknum vísindamanna á atferli og hugsun
mannsins. í þeirri gráðu felst mikil og góð vísindaleg menntun en
ekki leyfi til að vinna með skjólstæðinga í sálfræðilegri meðferð
nema að undangengnu frekara námi.
Aðrir aðilar, sem veita sálfræðilega meðferð, eru með menntun
af öðru tagi. Víða erlendis er að finna skóla sem bjóða upp á nám
í sálgreiningu annars vegar og sálfræðilegri meðferð * hins vegar.
Hvað varðar hið síðarnefnda er um meira en 400 mismunandi
meðferðarúrræði að ræða. Námstímabilið spannar oftast um 4 ár.
Menntun af þessu tagi er því miður ekki til á íslandi.
Heimur sálarinnar er víðáttumikill og flókinn. Erfitt er að skilja
hann að nokkru gagni nema með meðferð og/eða menntun. Mér
hefur alltaf fundist það sýna hugrekki og umtalsverða sjálfs-
bjargarviðleitni að leita sér aðstoðar sálfræðilegs meðferðaraðila
þegar erfiðleikar verða yfirþyrmandi. Það er svo annað mál að
halda meðferðina út. Ástæða þess að úthald brestur er sú að
þegar kemur að hinum djúpstæðu raunverulegu ástæðum
vandamála, fer að bóla á tilfinningum sem erfitt er að upplifa.
Hugsanlegar breytingar kosta átök þó svo breytingarnar leiði til
betra lífs.
Það má líkja því við ferðalag að taka ákvörðun um og panta
fyrsta tímann í sálfræðilegri meðferð, ferðalag þar sem ferða-
langurinn hefur ekki hugmynd um hvaða stað hann er að yfirgefa
né hvert ferðin muni bera hann. Hann veit einungis að staða
hans í dag er óviðunandi og hann vill gera breytingar til batnaðar.
Sálfræðileg meðferð er eins og lífið, ferðalag þar sem farmiðinn
gildir aðeins aðra leiðina. Enginn getur ferðast einn síns liðs á
þessari leið. Ferðafélaginn er meðferðaraðilinn og saman fara
þessar tvær mannverur um heima og geima. Nýir áfangastaðir
opna enn aðrar óþekktar leiðir og af þeirri ástæðu er ég komin á
þá skoðun að langtíma djúpmeðferð geti orðið lífsstíll líkt og
leikfimi, eins konar sálarleikfimi, fín fyrir fólk eins og mig sem
nenni ekki að sprikla.
Skýringar á eigin hegðun er að finna á þessum ókunnu
slóðum. Einnig á viðbrögðum, viðhorfum, líðan, samböndum við
annað fólk og hvað felst í því að vera manneskja og hvað það er
sem aðgreinir okkur frá dýrunum. Þar er að finna möguleika á að
gera breytingar á atferli og hugarstarfi sem hefur mótast í
bernsku og reynist ekki sérlega gagnlegt í lífinu síðar meir.
í upphafi ferðalagsins er heppilegt fyrir ferðalanginn að huga
vel að undirbúningi. í farangrinum eru ýmis innri vandamál sem
birtast gjarnan í ytri erfiðleikum. Ágætt er að lesa sér til um
ferðina t.a.m. um hin mismunandi meðferðarform því þau geta
verið býsna ólík. Það þarf einnig að huga að fjármögnun. Margir
bera fyrir sig að meðferð af þessu tagi sé kostnaðarsöm en eyða
á sama tíma mun meira fé í tóma vitleysu. Eyðsla í vitleysu er tap
og getur skapað ný vandamál meðan meðferð felur eingöngu í
sér gróða.
Sálfræðileg meðferð er persónulegt val hverrar manneskju
sem er umhugað um að lifa í eigin raunveruleika og sannleika og
láta allar blekkingar heimsins lönd og leið. Ferðafélagann þarf að
velja gaumgæfilega en fyrst og framar öllu þarf ákvörðunin að
fela í sér þá innri tilfinningu að vera tilbúin til fararinnar.
Sálfræðilegri meðferð má einnig líkja fremur við nám en
meðferð. Námsefnið er einstakur einstaklingur því öll erum við
mismunandi vegna erfða og umhverfis. Námið tekur langan tíma,
er alltaf forvitnilegt, stundum erfitt og það veldur breytingum á
einstaklingnum eins og allt annað nám. Nemandinn fær verð-
mæta innsýn í eigið sálartetur, lærir ósjálfrátt með eigin upplifun
gagnlega hluti eins og hlustun, viðtalstækni og gagnrýna hugsun.
Það þarf ekki að ræða hversu nauðsynlegir þeir þættir eru í
hjúkrunarstarfinu. I mínum huga er ekki nokkur vafi á að
hjúkrunarfræðingar geta aukið vellíðan og bætt árangur í lífi og
starfi með því að líta inn á við, opna dyr og glugga og lofta út.
‘í textanum nota ég til einföldunar þetta hugtak þegar ég tala
um meðferð.
Ég skora á Björgu Þálsdóttur, hjúkrunarfræðing og Ijósmóður,
að skrifa næsta Þankastrik
62
Tímarit hjúkrunarfræðinga • 1. tbl. 76. árg. 2000