Morgunblaðið - 30.11.2017, Qupperneq 66
66 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. NÓVEMBER 2017
Renndu við hjá okkur
í Tangarhöfða 13
FAI varahlutir
Ódýrari kostur í varahlutum!
stýrishlutir
hafa verið leiðandi í yfir 10 ár.
Framleiddir undir ströngu
eftirliti til samræmis
við OE gæði.
Sími 577 1313
kistufell.com
TANGARHÖFÐA 13
VÉLAVERKSTÆÐIÐ
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Það reyndist mér mikil gæfa að fá
loks útrás fyrir ritþörfina. Takist
manni ekki að miðla skapandi orku
sinni í uppbyggilegan farveg snýst
hún gegn manni og verður að eyði-
leggjandi afli sem getur hreinlega
drepið mann. Þegar ég loks fann
skrifum mínum farveg gat ég leyft
öllum djöfulskapnum og illskunni að
flæða þar,“ segir Kim Leine sem
þekktastur er fyrir skáldsöguna Spá-
mennina í Botnleysufirði sem tryggði
honum Bókmenntaverðlaun Norður-
landaráðs árið 2013.
Bókin kom út í íslenskri þýðingu
Jóns Halls Stefánssonar hjá Sæ-
mundi 2015, sem nú hefur gefið út
skáldævisöguna Kalak frá 2007 einn-
ig í þýðingu Jóns Halls. Kalak var
frumraun Leine og vakti verðskuld-
aða athygli í Danmörku á sínum tíma,
en í henni gerir hann upp fortíð sína
sem mótaðist af ströngum uppvexti í
Noregi í samfélagi Votta Jehóva.
Þaðan flúði hann til Kaupmannahafn-
ar og fékk inni hjá föður sínum sem
beitti hann kynferðislegu ofbeldi á
táningsárum. Einnig fjallar hann um
veru sína á Grænlandi þar sem hann
bjó og starfaði sem hjúkrunarfræð-
ingur um 15 ára skeið, lengst af með
eiginkonu og tveimur börnum. Á
sama tíma leitaði Leine sífellt í kyn-
ferðislegt samneyti við innfæddar
konur og ánetjaðist sterkum verkja-
lyfjum sem leiddi loks til starfsmissis.
Kom óreiðunni á blað
Þú hefur lýst því að Kalak hafi ver-
ið þín leið til að vinna úr fortíðinni.
Hvernig finnst þér að þurfa þá end-
urtekið að ræða þessa erfiðu lífs-
reynslu þegar bókin er endurútgefin
á nýju tungumáli?
„Bókin var mín leið til að lækna
mig. Það hefur reynst mér vel að um-
breyta fortíðinni með táknrænum
hætti í áþreifanlegan hlut sem ég get
flett upp í og lesið upp úr en einnig
lagt frá mér. Í bókinni tókst mér að
koma á blað óreiðunni sem ég hef
upplifað, reiði minni og sektarkennd.
Bókin hjálpaði ekki bara mér heldur
einnig fjölskyldunni og vinum, sem
fengu loks útskýringu á hlutunum.
Uppgjörið við föður minn hafði já-
kvæð áhrif á mig, en ég átti langt
fram á fullorðinsár í sjúklega „sym-
bíótísku“ sambandi við hann. Sam-
bandi okkar lauk formlega þegar Kal-
ak kom út,“ segir Leine og bendir á
að faðir hans eigi mjög erfitt með að
sætta sig við útgáfu bókarinnar og
skrifaði langt lesendabréf sem birt
var í Politiken 2014.
„Mér fannst
bréfið fráleitt, en
gladdist samtímis
yfir því að hann
skyldi skrifa það,
því almenningur á
að vita hvaða
mann hann hefur
að geyma. Menn
eins og hann eru
almenningi lokuð bók og margir halda
að auðvitað sé hægt að ræða málin við
þá, en það er ekki hægt. Mörg okkar
sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi
nota stóran hluta lífsins í að reyna að
skilja gerandann, en það er ekki hægt.
Þetta er endalaus leit. Ég lauk minni
leit með Kalak. Ég er ekki lengur
reiður föður mínum – reyndar vor-
kenni ég honum. Mér finnst ekkert
erfitt að ræða efni bókarinnar og get
lesið hvar sem er upp úr henni, líka þar
sem ofbeldinu er lýst.“
Hefur þú fengið mikil viðbrögð frá
öðrum þolendum kynferðisofbeldis?
„Já, ég hef fengið fleiri hundruð bréf
og þau eru enn að berast. Lesendur
upplifa að ég hafi talað persónulega til
þeirra. Ein skrifaði mér að eftir lestur
bókarinnar fyndist sér hún ekki vera
eins einmana. Mér þótti afskaplega
vænt um það bréf, því það staðfesti að
það var rétt ákvörðun hjá mér að
skrifa bókina og að hún snýst ekki ein-
vörðungu um mig heldur um það að
deila sársaukanum en í því ferli dreifir
maður byrðunum. Það er því mjög
mikilvægt að tala um kynferðisof-
beldi.“
Þjáðist af bölvun þagnarinnar
Bækur þínar hafa nær undan-
tekningarlaust fallið í afar góðan jarð-
veg og fengið afbragðsdóma. Finnur
þú fyrir pressu í ljósi fyrri velgengni
og verðlauna?
„Nei, þvert á móti. Bókmenntaverð-
laun Norðurlandaráðs veittu mér
ákveðið frelsi, því mér finnst ég geta
gert hvað sem ég vil – sem er mikill
lúxus. Eini annmarki verðlaunanna er
að þau hafa aukið hróður minn svo
mjög að ég fæ óhuggulega mörg heim-
boð á hverju ári,“ segir Leine og tekur
fram að hann eigi erfitt með að hafna
spennandi boðum. „En ég neyðist þó
til þess því ferðalögin taka of mikinn
tíma frá skrifunum,“ segir Leine og
áréttar að ferðalögin gagnist sér þó.
„Ferðalögin um heiminn til að
kynna bækur mínar hafa þjálfað mig í
að tala við fólk. Ég, líkt og margir karl-
menn, þjáðist af bölvun þagnarinnar
og fannst erfitt að tjá mig munnlega,
en hef neyðst til að bæta úr því og
þjálfast mikið á umliðnum árum.
Sennilega gerðist ég rithöfundur ein-
mitt vegna þess hversu erfitt ég átti
með að tjá mig munnlega,“ segir Leine
og tekur fram að sér sé hollt að heyra
hvernig nýir lesendur í öðrum menn-
ingarheimum upplifi bækur hans. „Því
þeir taka eftir öðrum hlutum en þeir
sem tilheyra sama samfélagi og með-
vitaðir eru um söguna. Lesendur ann-
arra landa eru þannig ekki þjakaðir af
sektarkennd Dana gagnvart Græn-
lendingum og sjá nýlendustefnuna sín-
um augum í ljósi sinnar sögu og
reynslu,“ segir Leine sem nýtti tímann
á ferðalagi sínu til Íslands fyrr í haust
til að yfirfara bók númer tvö í þrí-
leiknum sem hófst með Spámönn-
unum í Botnleysufirði og væntanleg er
í Danmörku í mars á næsta ári, en Jón
Hallur þýðandi og bókaforlagið Sæ-
mundur skoða nú möguleikann á að
koma bókinni út á íslensku.
Sækir í glæpasöguhefðina
„Bókin heitir Rauður maður, svart-
ur maður. Rauði maðurinn er inúískur
prestur eða særingamaður og svarti
maðurinn er Hans Egede, norski
presturinn sem stofnaði nýlenduna í
Godthåb 1728 með alvarlegum afleið-
ingum, bæði fyrir Dani og Grænlend-
inga. Rauði maðurinn á son sem Hans
Egede stelur frá honum og skírir til
kristni. Í framhaldinu takast menn-
irnir harkalega á um sál litla drengs-
ins. Þeir vilja báðir eiga hann og að
lokum er hann drepinn, en morðinginn
álítur eins og Henrik Ibsen að við get-
um aðeins átt það sem við höfum að ei-
lífu glatað,“ segir Leine og vill ekkert
gefa upp um það hvor myrði barnið.
Talandi um morð, þá eiga margar
bækur þínar slíkan verknað sameig-
inlegan. Sækir þú meðvitað í glæpa-
söguna sem bókmenntagrein?
„Ég heyri frá mörgum lesendum að
þá langi iðulega að lesa bækur mínar
strax aftur að lestri loknum. Það hefur
sennilega eitthvað með það að gera
hvernig ég byggi upp frásögnina. Ég
kem oft með óvænta vendingu undir
lok bókar, sem er stílbragð sem sótt er
til vinsælla bókmenntagreina á borð
við glæpasöguna. Mér finnst gott að
nýta mér slíkt, því þá sækir bókin á
lesendur sem hugsa þá ekki aðeins um
plottið heldur einnig innihaldið og jafn-
vel svo mikið að þeir kjósa að lesa bók-
ina aftur,“ segir Leine og bendir sem
dæmi um þetta á morðið í Spámönn-
unum í Botnleysufirði.
„Morðið á ekkjunni fær lesendur til
að líta á persónurnar í nýlendunni með
tortryggnum augum sem nýtist einnig
til að taka eftir hreyfiaflinu í sam-
skiptum fólksins í þessu litla plássi.
Margir eru pirraðir á því að geta ekki
fengið fullvissu um hver drap hana,“
segir Leine og tekur fram að mikil-
vægt sé að fylgjast með því hjá hverj-
um gullkrossinn í sögunni sé. „Ég nota
glæpasöguna aðeins upp að vissu
marki, en síðan þurfa lesendur að
horfa til sálfræði persóna til að komast
að lausninni.“
Þarf að vera brútal í skrifum
Þú bjóst og starfaðir á Grænlandi í
15 ár. Hvað kom þér mest á óvart með-
an þú dvaldir þar?
„Það kom mér á óvart hversu mikill
og greinilegur aðskilnaðurinn milli
Grænlendinga og Dana er. Í matsaln-
um sátu Danirnir í öðrum endanum og
Grænlendingar í hinum með nokkurs
konar einskis manns land á milli sín.
Það kom mér gríðarlega á óvart, ekki
síst þegar ég komst að því hversu gest-
risnir Grænlendingar eru og hversu
mjög þá langaði til að eiga góð sam-
skipti við Dani. Mér virtust Danir nota
það sem lélega afsökun fyrir sam-
skiptaleysinu að Grænlendingar vildu
ekkert hafa með þá að gera. Þessi að-
skilnaður ríkir enn víða á Grænlandi.
Danir leggja sig ekki fram um að læra
grænlensku á sama tíma og Íslend-
ingar læra hana nær undantekningar-
laust,“ segir Leine sem sjálfur náði af-
ar góðum tökum á málinu.
Þú virðist skrifa af góðu innsæi og
samkennd í garð Grænlendinga?
„Mögulega er ég of góður við Græn-
lendinga. Rithöfundar þurfa helst allt-
af að vera svolítið brútal í skrifum sín-
um. Ég reyni að vera beittur þegar
kemur að sjálfstæðisbaráttu þeirra því
það er eins og þá skorti hugrekki til að
taka skrefið til fulls ef sjálfstæði er það
sem þeir vilja. Staðan núna er óstöðug
og það gengur ekki. Það vantar stjórn-
málafólk með kjark sem þorir að vera
afgerandi í afstöðunni. Grænlendingar
vilja sjálfstæði en á sama tíma ekki sjá
á eftir fjárhagslegum stuðningi Dana
– en það verður ekki bæði sleppt og
haldið.“
Orðinn háður því að skrifa
Ég hef séð haft eftir þér að rit-
störfin hafi komið í stað neyslunnar
áður. Viltu útskýra hvernig?
„Í raun má segja að orkan sem ég
fæ úr skrifunum komi í stað vímu-
efnaneyslunnar. Ég er orðinn jafn-
háður því að skrifa og ég áður var háð-
ur hlutum á borð við vímuefni, mat eða
kynlíf. Þannig hefur mér tekist að
skipta neikvæðum vímuvöldum út fyr-
ir jákvæða. Ég er líka orðinn háður því
að lesa og passa alltaf upp á að hafa
með mér bók þegar ég er á ferðalagi,
enda gætir fíkillinn þess ávallt að
gleyma aldrei vímuefni sínu. Ef það
myndi einhvern tíma gerast að ég
gleymdi lesefninu þá myndi ég fyllast
skelfingu. Konan mín getur staðfest
að ég verð nánast árásargjarn ef ég fæ
ekki lesskammtinn minn daglega,“
segir Leine og tekur fram að rútínan
sé honum lífsnauðsynleg. „Ég deili
þeirri þörf með mörgum öðrum fíklum
sem tekist hefur að verða edrú að
þurfa að hafa mjög skýra ramma, því
þeir skapa öryggi. Ég elska hversdag-
inn þar sem rútínan endurtekur sig í
sífellu.“
Ertu byrjaður á næstu bók að lok-
inni Rauður maður, svartur maður?
„Já, ég er ávallt með nokkrar bæk-
ur í vinnslu í einu. Ein þeirra nefnist
Robinsonmanifestet og er fullmótuð í
huga mér – ég þarf bara að finna tíma
til að skrifa hana. Hún fjallar um
mann sem lifir í óhamingjusömu
hjónabandi. Hann skapar eigin eyði-
eyju í kjallaranum undir húsinu þar
sem hann skrifar stefnuyfirlýsingu
reiðs manns,“ segir Leine og tekur
fram að hann leiki sér með ýmsar vís-
anir í eyðieyju Róbinsons Krúsó.
„Maðurinn kynnist sínum eigin Frjá-
degi á netinu og bókinni lýkur með því
að hann heldur til Singapúr eða Taí-
lands til að finna nýju konuna í lífi
sínu.“
Þú virðist, ólíkt mörgum rithöfund-
um, ekki vera hræddur við að segja
frá óskrifuðum bókum.
„Mér hefur reynst mikilvægt að
skynja viðbrögð þeirra sem hlusta á
hugmyndir mínar. Ef hugmynd lifir
það af að vera endursögð margsinnis
þá er hún nógu góð til að rata á bók.
Við það að segja frá hugmyndum sé
ég þær oft með ferskum augum sem
hjálpar mér í þróuninni.“
Kynferðisofbeldið þarf að ræða
Morgunblaðið/RAX
» Takist manni ekkiað miðla skapandi
orku sinni í uppbyggi-
legan farveg snýst hún
gegn manni og verður
að eyðileggjandi afli
sem getur hreinlega
drepið mann.
Verðlaunarithöfundurinn Kim Leine gerir upp erfiða fortíð sem markaðist af kynferðislegu ofbeldi
föður hans á táningsárum í fyrstu skáldsögu sinni, Kalak, sem nýverið kom út í íslenskri þýðingu
Skilningur „Mörg okkar sem hafa
orðið fyrir kynferðisofbeldi nota
stóran hluta lífsins í að reyna að
skilja gerandann, en það er ekki
hægt,“ segir Kim Leine