Læknablaðið - 01.07.2018, Blaðsíða 7
LÆKNAblaðið 2018/104 331
R I T S T J Ó R N A R G R E I N
Presumed consent
for organ donation
in Iceland
Kristinn Sigvaldason MD
Head of Intensive care,
Landspitali University
Hospital, Reykjavík, Iceland
doi.org/10.17992/lbl.2018.0708.190
Kristinn
Sigvaldason
svæfinga- og gjörgæslu-
læknir á Landspítala
Fossvogi
krisig@landspitali.is
Meðal merkustu framfara læknisfræðinnar er flutn-
ingur líffæris frá líffæragjafa í annan einstakling
sem þjáist af alvarlegri líffærabilun. Meðferðin getur
bjargað lífi sjúklinga eða bætt lífsgæði þeirra veru-
lega og þrátt fyrir að eiga sér ekki langa sögu hef-
ur hún verið í mikilli framþróun og er enn. Fjöldi
þeirra sem þurfa á líffærum að halda eykst stöðugt
en framboð hefur ekki aukist að sama skapi.1 Líf-
færagjöf frá látnum einstaklingi er möguleg ef hann
hefur verið úrskurðaður látinn samkvæmt skil-
merkjum heiladauða og ljóst er að heilastarfsemi
hefur stöðvast á óafturkræfan hátt. Helstu orsakir
þess eru heilablóðföll eða alvarlegar heilaskemmdir
vegna höfuðáverka. Árið 1991 samþykkti Alþingi lög
um að nema mætti brott líffæri úr líkama einstak-
lings að honum látnum ef hann hefði lýst yfir vilja til
þess í lifanda lífi en ef slík yfirlýsing væri ekki fyrir
hendi þyrfti samþykki nánustu ættingja.2 Grunnur
að þeim lögum var því „ætluð neitun“. Samtímis
var sett fram reglugerð um hvernig úrskurða skyldi
einstakling látinn samkvæmt heiladauðaskilmerkj-
um. Þessi lög gerðu líffæragjafir mögulegar hér
á landi. Í slíkum tilfellum kemur teymi lækna og
hjúkrunarfræðinga frá erlendu samningssjúkrahúsi
og sér um brottnám líffæra en allur undirbúningur
er í höndum íslensks heilbrigðisstarfsfólks. Líffæra-
gjafir hafa að meðaltali verið um þrjár á ári (um 10
líffæragjafir á milljón íbúa),3 nokkru færri en í ná-
grannalöndum okkar. Fyrstu árin höfnuðu aðstand-
endur líffæragjöf í 40% tilfella en það hlutfall hefur
farið lækkandi á síðustu árum og líffæragjöfum hef-
ur fjölgað.
Mörg Evrópulönd hafa breytt lagasetningu á
þann hátt að gert er ráð fyrir „ætluðu samþykki“
einstaklinga fyrir líffæragjöf nema viðkomandi hafi
áður lýst sig andvígan því. Hefur þetta til dæmis
verið gert í Svíþjóð, Finnlandi, Austurríki, Noregi,
Belgíu, Frakklandi og á Spáni sem fyrstur landa
gerði þessa lagabreytingu.4 Hlutfallslega er fjöldi
líffæragjafa mestur á Spáni, eða 35 á hverja milljón
íbúa á ári. Almennt hefur ekki verið sýnt fram á að
lagabreytingin hafi fjölgað líffæragjöfum en laga-
setningin staðfestir þjóðfélagssátt um að líffæri frá
látnum einstaklingum skuli grædd í sjúklinga sem
á þurfa að halda. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga
(80%) er hlynntur löggjöf um ætlað samþykki sam-
kvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birt var í
Læknablaðinu 2014 og í þeirri rannsókn lýstu 84% sig
viljuga til að gefa eigin líffæri við andlát sitt. Aðeins
5% höfðu þó skráð þann vilja sinn.5
Nýlega var samþykkt á Alþingi breyting á lög-
um um brottnám líffæra þannig að nema megi brott
líffæri úr látnum einstaklingi og nota við læknis-
meðferð annars einstaklings, hafi hinn látni ekki
lýst sig andvígan því í lifanda lífi. Grunnurinn að
þeim lögum er því ætlað samþykki. Nýju lögin
munu taka gildi 1. janúar 2019. Með þessu er stigið
mikilvægt framfaraskref í líffæragjafamálum og er í
raun þjóðinni til sóma. Frumvarpið var samþykkt af
miklum meirihluta þingmanna og enginn var and-
vígur því. Í íslensku lögunum er skýrt tekið fram
að ekki megi nema brott líffæri einstaklings leggist
nánasti vandamaður gegn því. Þar með er staðfest
sú regla sem viðhöfð hefur verið hér á landi og víð-
ast annars staðar að ekki er farið gegn vilja ættingja.
Lagabreytingin auðveldar heilbrigðisstarfsfólki öll
samskipti við aðstandendur einstaklings sem hlotið
hefur óafturkræfa stöðvun á heilastarfsemi auk þess
sem hún ætti að auðvelda aðstandendum að taka
ákvörðun fyrir hönd hins látna. Ef náinn aðstand-
andi er mótfallinn líffæragjöf er fullt tillit tekið til
þeirrar afstöðu.
Líffæragjöf er dýrmætasta gjöf sem við getum
gefið öðrum og dæmi eru um að einn látinn einstak-
lingur hafi bjargað lífi eða bætt verulega lífsgæði
sex annarra. Heiladauði er að sjálfsögðu hörmuleg-
ur atburður sem getur hent einstaklinga á öllum
aldri en það getur stundum verið aðstandendum
huggun harmi gegn að geta hjálpað öðrum í neyð
þegar slíkar aðstæður koma upp og mikilvægt að
lagaumhverfi okkar auðveldi allan framgang þess. Í
þeim tilgangi er þessi lagabreyting afar mikilvæg en
kynna þarf mikilvægi líffæragjafar fyrir almenningi
og huga vel að skipulagi og umgjörð starfseminnar í
heilbrigðiskerfinu. Einnig er afar mikilvægt að hver
og einn ákveði með sjálfum sér hvaða viðhorf hann
hefur til líffæragjafar og kynni afstöðu sína fyrir
sínum nánustu eða skrái ákvörðun sína á heimasíðu
Embættis landlæknis.
Heimildir
1. Tullius SG, Rabb HN. Improving the Supply and Quality of Deceased-
Donor Organs for Transplantation. N Engl J Med 2018; 378: 1920-9.
2. Lög um ákvörðun dauða, nr. 15/1991 og lög um brottnám líffæra, nr.
16/1991.
3. Kárason S, Jóhannsson R, Gunnarsdóttir K, Ásmundsson P, Sigvaldason
K. Líffæragjafir á Íslandi 1992-2002. Læknablaðið 2005; 91: 417-22.
4. Rithalia A, McDaid C, Suekarran S, Myers L, Sowden A. Impact of
presumed consent for organ donation rates: a systematic review. BMJ
2009; 338: a3162.
5. Rúnarsdóttir K, Ólafsson K, Arnarson Á. Viðhorf Íslendinga til ætlaðs
samþykkis við líffæragjafir. Læknablaðið 2014; 100: 521-5.
Lög um brottnám líffæra við andlát
Öðlastu nýtt
viðhorf
Inflectra er fyrsta mAb samheitalíftæknilyfið.
Lyfið var þróað til að hafa sambærilega virkni
og öryggi og frumlyf infliximab til að auka
meðferðarval sjúklinga með gigtar-, meltingar-
og húðsjúkdóma.1.
Heimildir:
1. INFLECTRA™. European Public Assessment Report (EPAR). June 2013.
Available at: http://www.ema.europa.eu/docs/en_GB/document_library/
EPAR_-_Public_assessment_report/human/002778/WC500151490.pdf
http://www.ema.europa.eu/docs/is_IS/document_library/EPAR_-_Product_
Information/human/002778/WC500151489.pdf
Fyrsta samheitalíftæknilyfið sem er einstofna mótefni (mAb)
og notað í gigtar-, meltingar- og húðsjúkdómum.