Læknablaðið - 01.06.2018, Síða 28
300 LÆKNAblaðið 2018/104
þann grun sinn að ráðherrann væri geðveikur. Jónas brást við
með því að rita fáeinum dögum síðar eina frægustu grein í stjórn-
málasögu Íslendinga, Stóru bombuna. Þar lýsti hann heimsókn
geðlæknisins – og lét engan eiga neitt hjá sér. Jónas sýndi pólitísk
klókindi með því að skýra sjálfur frá málinu – með sínum hætti.
Sennilega styrkti málið hann í embætti. Og Hriflu-Jónas rak svo
Helga Tómasson frá Kleppi og var talinn hafa komið í veg fyrir að
Helgi fengi stöðu í Danmörku.3
Guðmundur Hannesson
Guðmundur Hannesson, prófessor og
landlæknir, sat á þingi fyrir Húnvetn-
inga 1914-15. En alla ævi skipti hann
sér af stjórnmálum og hafði mikil áhrif.
Hann var gáfaður eldhugi sem hafði
brennandi áhuga á framfaramálum á
mörgum sviðum þjóðlífsins.4 Guðmund-
ur gat verið kappsamur og harðskeyttur
í skrifum, eins og ummæli hans hér að
framan sýna.
Árið 1906 varð Guðmundur einna
fyrstur Íslendinga til þess að rökstyðja
ítarlega að Íslendingar gætu og ættu að skilja alveg við Dani og
stefna að sjálfstæði og fullveldi. Á þeim tíma töldu flestir það
fásinnu að hin fámenna og fátæka þjóð gæti orðið sérstakt ríki.
Guðmundur var þarna í hópi hinna róttækustu og studdi Land-
varnarflokkinn, sem barðist harkalegast gegn Uppkastinu 1908.
Uppkastið féll í kosningunum 1908, þó það hefði fært Íslending-
um litlu minna sjálfstæði en sambandslagasamningurinn 1918.
Það er afar athyglisvert að Guðmundur studdi Uppkastið. Hann
taldi það að vísu ekkert fullnaðarmark í sjálfstæðismálinu, en
hyggilegt væri að taka tilboði Dana og vinna að fullum skilnaði í
skrefum.
Mest áhrif í stjórnmálum hafði Guðmundur kannski í húsnæð-
is- og skipulagsmálum, en hann var meðal helstu frumkvöðla
Íslendinga á því sviði, skrifaði merk rit um húsagerðarlist og
skipulag – og gerði meira að segja skipulagsuppdrætti. Guð-
mundur taldi að framfarir í húsagerð og skipulagi væru forsenda
þess að heilbrigði þjóðarinnar gæti komist í skikkanlegt horf.
Guðmundur setti líka fram hugmyndir um stjórnskipan. Hann
taldi að þingræðisstjórn væri sennilega „lélegasta og óviturleg-
asta stjórnskipulag, sem fundizt hefur“4 – það ýtti undir flokks-
ræði og að flokkar ynnu kosningar með lýðskrumi. Í staðinn lagði
hann til að Íslendingar tækju upp goðaveldi: Goðar (eða þing-
menn) yrðu kjörnir ævilangt. Kjósendur gætu sagt sig úr þingi
hjá sínum goða og valið sér annan og atkvæðavægi hvers goða á
þingi færi eftir tölu þeirra kjósenda sem styddu hann.
Sannarlega frumlegar og róttækar tillögur.
Katrín Thoroddsen
Katrín sat á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn 1946-49. Hún var dóttir
Theódóru og Skúla Thoroddsen, svo róttækni var henni í blóð
borin. Katrín lét til sín taka á mörgum sviðum þjóðlífsins og
hafði mikil áhrif.5 Seta hennar á þingi skipti þar minna máli en
margt annað.
Katrín sat á þingi þegar Keflavíkursamningurinn var gerður
1946 og Ísland gekk í NATO 1949. Hún var hvorutveggja afar
andvíg, talaði með friði og á móti atómsprengju. Á þingi beitti
hún sér auk þess fyrir málefnum kvenna og barna, meðal annars
stofnun dagheimila.
En barátta Katrínar fyrir konur og börn stóð miklu lengur en
þingseta hennar. Hún var brautryðjandi í fræðslu og umræðu um
kynfrelsi kvenna, takmörkun barneigna og fræðslu um kynlíf.
Fyrirlestur hennar, Frjálsar ástir – erindi um takmarkanir barneigna,
vakti gríðarlega athygli og deilur árið 1931. Kristín Ástgeirsdóttir
telur að barátta Katrínar og fræðsla um fóstureyðingar hafi skil-
að árangri þegar fyrstu lög um fóstureyðingar voru samþykkt á
Alþingi 1935 og 1938.5 Auk þessa má nefna að Katrín barðist mjög
fyrir bættri menntun kvenna og gagnrýndi stjórnvöld harkalega
á millistríðsárunum fyrir að hafna umsóknum ofsóttra þýskra
gyðinga um landvist.
Á þriðja áratug 20. aldar var víða rætt um „nýju konuna“,
frjálsu konuna, sem væri félagi karlmannsins og réði sér sjálf,
gæti gengið „í stuttum kjólum og jafnvel buxum“. Halldór Kiljan
Laxness skrifaði fræga grein um „nýju konuna“ 1925, „Drengja-
kollurinn og íslenska konan“. Katrín var holdgervingur „nýju
konunnar“. Hún var menntuð, „sá fyrir sér sjálf og var alla tíð
Guðmundur Hannesson bjó í húsinu á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu sem hann
hannaði og byggði sjálfur. Í kjallara hússins var lengi Röntgenstofa Gunnlaugs Claes-
sen og í viðbyggingunni var læknastofa Hannesar sonar Guðmundar. Í öllu húsinu eru
nú seldar veitingar og í viðbyggingunni er Michelin-stjörnustaðurinn Dill.
Katrín árið 1956 að skoða tvíbura á fyrsta árinu.