Skírnir - 01.09.2005, Blaðsíða 44
með sér.127 Hins vegar ollu miklu þau ákvæði náttúruverndarlaga
frá 1971 að við undirbúning að meiri háttar mannvirkjagerð á borð
við virkjanir skyldi taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða þegar á
frumstigi. Samkvæmt lögunum var orkufyrirtækjum ætlað að
vinna með náttúruverndarráði þegar virkjanir væru áformaðar.128
Náttúruverndarsjónarmið settu svip á umfjöllun manna innan raf-
orkugeirans um virkjanamál á áttunda áratugnum og töldu sumir
rétt að taka mið af þeim sjónarmiðum í áætlunum um vatnsaflsnýt-
ingu. Þetta kom t.d. fram í máli Valgarðs Thoroddsens, rafmagns-
veitustjóra ríkisins, á aðalfundi Sambands íslenskra rafveitna árið
1972. Kvaðst hann hafa það á tilfinningunni að Dettifoss, Goðafoss
og Gullfoss væru „eins konar helgigripir íslenskrar náttúru í hug-
um landsmanna og helgispjöll ber að varast ef þess er nokkur kost-
ur“.129 Jóhannes Nordal, þáverandi forstjóri Landsvirkjunar, vék
einnig að áhrifum náttúruverndar á virkjanaáætlanir á fundi Sam-
bands íslenskra rafveitna tæpu ári síðar, þar sem hann benti á að
nýtanlegt vatnsafl í landinu myndi minnka miðað við eldri áætlan-
ir vegna umhverfissjónarmiða. Gamlar áætlanir sem ekki höfðu
tekið tillit til náttúruverndar gátu ekki lengur talist raunhæfar.
„Hinn mikli og vaxandi áhugi á náttúruvernd og umhverfismálum
hefur borizt til Íslands og þegar haft áhrif á afstöðu manna til virkj-
unarframkvæmda, svo sem dæmin sanna“, sagði Jóhannes og vís-
aði þar greinilega til Laxárdeilunnar sem þá stóð sem hæst. Það
væri „engum blöðum um það fletta“, að mati Jóhannesar, „að taka
verður áætlanir um nýtanlega vatnsorku í landinu til gagngerðar
endurskoðunar, þar sem fullt og eðlilegt tillit verður tekið til
verndunar náttúruverðmæta“. Kvað hann Landsvirkjun hafa áhuga
á gerð endurskoðaðrar áætlunar af þessu tagi fyrir Þjórsár- og
Hvítársvæðið í samráði við orkumálastjóra.130
unnur birna karlsdóttir274 skírnir
127 Um sögu Laxárdeilunnar, sjá: Gísli Jónsson, Saga Laxárvirkjunar: Megin-
þættir (Reykjavík 1987) og Sigurður Gizurarson, Laxárdeilan. Lögmaður
landeigenda segir frá (Reykjavík 1991).
128 Stjórnartíðindi A 1971, bls. 116–123. Lög nr. 47/1971, sjá 29. gr. „Verndun
fossa og hverasvæða“, DV 22. maí 1989.
129 „Gullfoss, Goðafoss og Dettifoss helgigripir ísl. náttúru“, Tíminn 8. júlí 1972.
130 „Samkeppnisaðstaða Íslendinga um orkuverð mun batna“, Morgunblaðið 8.
mars 1973.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:53 Page 274