Skírnir - 01.09.2005, Page 52
sýnt þyki að viðmælandinn sé Ezra Pound sem jafnframt mun eiga
stærstan þátt í gerð textans.6
Í umræddri yfirlýsingu er í forgrunni sú ögun myndrænnar
framsetningar og orðavals sem er sérkenni ímagískrar fagurfræði, en
samhliða textanum birtir Pound nánari útlistun á grundvallaratrið-
um hinnar nýju hreyfingar í eigin nafni og birtast þær hér að aftan
undir heitinu „Nokkur bönn eftir ímagista“. Í hugmyndum ímag-
ista felst jafnframt hörð gagnrýni á ríkjandi fagurfræðihugmyndir
og er henni einkum beint að andleysi impressjónismans og dulrænu
og torræðu myndmáli symbólismans. Þess í stað boðar hreyfingin
öfluga ljóðlist sem borin sé uppi af skýru og altæku myndmáli og er
ætlað að frelsa ljóðræna tjáningu undan tilfinningum og persónu-
leika höfundarins. Að þessu leyti sækir Pound margvíslegar hug-
myndir til franskra raunsæishöfunda á borð við Stendhal og
Gustave Flaubert. Meginmarkmið stefnunnar er því eins konar
hreinsun hins skáldlega máls af hvers kyns skrúði eða torræðni og
er markmiðið að endurskapa hið „náttúrulega“ tungumál. Segja má
að fyrsta safnrit hreyfingarinnar, undir ritstjórn Pounds, marki í
senn hápunkt hennar og endalok, en skömmu eftir útgáfu þess árið
1914 kemur til innbyrðis deilna sem leiða til þess að Pound segir
skilið við hópinn.7 Nokkrir úr hópnum halda þó áfram að starfa
undir merkjum ímagismans, en starfsemi hreyfingarinnar færist að
mestu til Bandaríkjanna, þar sem henni er stýrt af skáldkonunni
benedikt hjartarson282 skírnir
6 Textinn birtist upphaflega í tímaritinu Poetry árið 1913, undir titlinum
„Imagisme“, ásamt þeirri yfirlýsingu Pounds sem hér birtist í íslenskri þýðingu.
Pound mun upphaflega hafa samið viðtalið og beðið Flint um að undirrita það,
en Flint gerði síðan nokkrar breytingar á textanum og sendi hann aftur til
Pounds sem endurvann hann til útgáfu. Árið 1912 hafði Flint birt langa ritgerð
um franska samtímaljóðlist í tímaritinu Poetry Review, þar sem hann gerði grein
fyrir þeim fjölda „isma“ sem komið höfðu fram á bókmenntasviðið í Frakklandi
á síðastliðnum árum og leitaðist við að lýsa sérkennum þeirra á gagnrýninn hátt.
Ekki er ósennilegt að eitt helsta markmiðið með því að setja nafn Flints undir
þessa yfirlýsingu ímagista hafi verið að undirstrika aðgreiningu hinnar nýstofn-
uðu ensku hreyfingar frá erlendum framúrstefnuhópum samtímans.
7 Des Imagistes. An Anthology (Albert and Charles Boni, New York 1914). Þótt
umræddu riti sé hér lýst sem „safnriti“ ímagista ber að nefna að margir af þeim
sem þar áttu efni (þeirra á meðal James Joyce) tengdust hreyfingunni aðeins
lauslega og höfðu litla eða enga þekkingu á fagurfræðilegum og kennilegum
grundvelli hennar.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:53 Page 282