Skírnir - 01.09.2005, Page 54
hópa (jafnt til vinstri og hægri) á meginlandi Evrópu, en kynni Lew-
is af kenningum sindikalista og þjóðernishreyfingunni Action
Française á dvalartíma hans í París frá 1903 til 1908 verða mikilvæg-
ur grundvöllur þeirrar vortisísku fagurfræði sem byggir á listrænni
úrvalshyggju („elítisma“) og felur í sér skilgreiningu framúrstefnu-
hreyfingarinnar sem eins konar hryðjuverkasamtaka er hafa það
hlutverk að herja á smáborgarahátt og menningarlega úrkynjun
borgaralegs þjóðfélags. Að þessu leyti leggja vortisistar ríka áherslu
á að varðveita sjálfstæði listarinnar til að vernda hana fyrir lágkúru
hversdagsleikans. Í orðræðu hreyfingarinnar verður „listin“ að eins
konar hreinu eða ósnortnu rými handan borgaralegrar fjöldamenn-
ingar. Slíkar hugmyndir um sjálfstæði listarinnar fela engan veginn í
sér að litið sé á listina sem áhrifalausa í stjórnmálalegu eða þjóðfé-
lagslegu tilliti, heldur er „sjálfstæði“ listarinnar fremur skilgreint
sem nauðsynleg forsenda þess að hún geti þjónað hlutverki sínu í
þeirri menningarlegu endurreisn sem hreyfingin beitir sér fyrir.
Verkefni vortisismans tekur þó á sig ólíkar myndir. Í því má
greina sérkennilega blöndu hernaðarhyggju, listrænnar úrvals-
hyggju, þjóðernishyggju, lífhyggju og frumhyggju er renna saman í
upphafningu ofbeldisins sem leiðar til hreinsunar á menningarlegri
úrkynjun samtímans. Í fyrsta hefti Blast kemst Lewis m.a. svo að
orði að „það að drepa einhvern hljóti að vera æðsta nautnin sem til
sé“, þar sem hún geri manninum kleift að upplifa nautn sjálfsmorðs-
ins án þess að vegið sé að hvöt hans til að viðhalda tegundinni eða
jafnvel útrými þessari eðlishvöt mannsins.9 Það má því á margan hátt
teljast viðeigandi að heimsstyrjöldin fyrri skuli marka endalok þess-
arar skammlífu hreyfingar sem leysist upp eftir að ýmsir af mikil-
vægustu félögum í hópnum láta lífið á vígstöðvunum.10 Lewis held-
ur þó áfram að helga krafta sína menningarlegu andófi í því skyni að
benedikt hjartarson284 skírnir
9 Wyndham Lewis: „Futurism, Magic and Life“ (Blast 1, bls. 132–135, hér bls. 133).
10 Af þeim sem þar létu lífið má nefna T.E. Hulme og H. Gaudier-Brzeska, en á
meðal efnis í 2. hefti Blast árið 1915 (sem tileinkað er heimsstyrjöldinni) eru
skrif hins síðarnefnda frá vígstöðvunum, þar sem hann upphefur „lækninga-
mátt“ stríðsins og hlut þess í að útrýma drambi og sjálfselsku einstaklingsins
(„Vortex Gaudier-Brzeska. (Written from the Trenches)“, bls. 33–34). Sjá nán-
ar um hernaðarhyggju í verkum W. Lewis: David Peters Corbett: Wyndham
Lewis and the Art of Modern War.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:53 Page 284