Skírnir - 01.09.2005, Page 187
Burke segir að virkjun hins háleita þurfi að höfða til sjálfsbjargarhvat-
ar okkar. Eitthvað ógni tilvist okkar eða öryggi og því sé vakinn hjá okk-
ur feginleiki yfir að vera í öruggu skjóli. Megininntakið í kenningunni er
að finna í þessum orðum hans:
Sú tilfinning sem fellur undir sjálfsbjargarhvöt og snýst um sársauka
og ógn, er einfaldlega sársaukafull þegar hún hefur skyndileg áhrif á
okkur. Tilfinningin er hins vegar hrífandi þegar við höfum einhverja
hugmynd um sársauka og ógn án þess að vera í þess konar aðstæðum.
Þessa hrifningu kalla ég ekki ánægju vegna þess að hún virkjar sárs-
auka og skilur sig frá öðrum hugmyndum um ánægju. Það sem vekur
þessa hrifningu kalla ég háleitt.3
Það er sem sagt ekki sjálf reynslan sem vekur háleitni heldur tilhugsunin
um mögulega ógnvekjandi reynslu. Fyrir nútímamanninum gætu t.d.
heiðnir bardagar úr fornsögunum flokkast sem háleitir.4 Þótt umræða
Burkes snerti mest náttúrusýn nær hún langt út fyrir þann ramma. Þögn
og einsemd geta vakið háleitni, einnig hið myrka og dulda sem birtist m.a.
í þjóðsögum; Burke taldi jafnvel að einstakar dýrategundir og ákveð-
in hljóð væru líkleg til að stuðla að háleitri reynslu. Nákvæm sundur-
greining af þessu tagi segir þó kannski fremur lítið um þá reynslu sem
kennd er við hið háleita. Þeir sem síðan hafa fjallað um hugtakið tengja
það iðulega náttúrunni þó að þeir séu ekki að öllu leyti sammála um
hvernig eigi að skilgreina það. Oft er það tengt því sem er stórt, hrikalegt,
afskekkt, óhöndlanlegt og heillandi um leið – því sem vekur virðingu og
aðdáun blandaða vanmætti og ugg. Þetta leiðir hugann að óendanleikan-
um og jafnvel nálægð við almættið, enda hefur hugtakið oft fengið trúar-
lega tilvísun. Burke segir um háleita upplifun: „Sterkustu áhrif hins há-
leita birtast í […] furðu; minni háttar áhrif þess eru aðdáun, lotning og
virðing.“5
Burke sem og ýmsir aðrir fræðimenn eru sammála um að forsendan
fyrir því að upplifa hið háleita sé að vera í stöðu gestsins sem horfir úr
fjarlægð. Það sem er kunnuglegt er ólíklegt til að vekja viðbrögð af þessu
íslendingar 417skírnir
3 Edmund Burke: A Philosophical Enquiry into the Orgin of our Ideas of the
Sublime and Beautiful. Ritstj. James T. Boulton. Lundúnum 1968, bls. 51. Þýð.
greinarhöf.
4 Lars Lönnroth ræðir þetta á mjög fróðlegan hátt í kaflanum „Det nordiska sub-
lima“ í bókinni Skjaldemjödet i berget. Essayer om fornisländsk ordkonst och
dess återanvänding i nutiden. Stokkhólmi 1996, bls. 93–113.
5 Burke: tilvitnað rit, bls. 57. Þýð. greinarhöf.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:54 Page 417