Skírnir - 01.09.2005, Page 217
teppi, ljós frá leslampa og skuggar mynda persneska mottu með bláum
fjöllum og svefngrasi.16
Sögumaðurinn Sigmar
Glögg skil verða í persónu Sigmars þegar Næturluktin hefst og greinilega
hefur orðið mikil breyting á drengnum á þessum 14 árum, þótt ekkert
komi fram í sögunni um hve langur tími hefur liðið. Í fyrri bókinni var
hann mjög óánægður með að þurfa að dvelja hjá hjónunum Björgu og
Ágústi en gat þó ekki gert grein fyrir því í orðum. Þar er dregin upp mynd
af dreng sem á við erfiðleika að stríða, barni sem bítur á jaxlinn og hark-
ar af sér, þykir betra að segja ósatt en lýsa tilfinningum sínum. Sýnt er
hvernig hann flýr frá sársaukanum og hverfur í ímyndaða heima. Þessu er
lýst af mikilli næmni. Form frásagnarinnar miðlar innilokuninni. Sögu-
maðurinn segir ekki nema hálfan sannleikann, skrökvar meira að segja
vísvitandi. Í hálfkæringi vitnar Sigmar í bækurnar sem hann les en segir
ósatt um það sem í þeim stendur. Sú breyting verður í Næturluktinni að
sögumaður virðist miðla ‘sannari’ frásögn. Hann virðist sættast við að-
stæður sínar og sýnir það meðal annars með því að fara rétt með þegar
hann talar um lesefni sitt. Nú sýnir hann í hug sér, auk þess sem hann seg-
ir frá því sem honum finnst skemmtilegt og gott, gagnstætt öllum frá-
sögnum í Gangandi íkorna sem eru á neikvæðum nótum. Formlega eru
sögurnar eins upp byggðar, skiptast í tvo hluta. Sá fyrri er raunsæislegur,
persónuleg frásögn Sigmars af lífinu í sveitinni. Smáatriði varpa ljósi á hið
stóra, samtöl og lýsingar vekja samúð með sögupersónum. Hinn síðari er
einhvers konar leikur, martraðarkennd fantasía eða hugarflug drengsins,
þriðju persónu frásögn.
Saga Sigmars, borgarbarnsins sem sent er í sveit, er aðeins efsta lag frá-
sagnanna því undir liggja tilvistarspurningar, oft með gamansömum brag
en hinn þungi undirtónn dylst engum. Í sögum hans blandast leikir
barnshugans saman við daglegt líf á bænum, á sama hátt og þjóðsögur og
ævintýri eru hluti af efniviði skáldsins sjálfs við smíði bernskuheimsins.
ugla sat á kvisti 447skírnir
16 Hér má nefna að Jón Karl Helgason hefur bent á að mynstur í gólfteppum
Gyrðis hljóti að minna á athuganir slavneska bókmenntafræðingsins Tzvetan
Todorovs á smásögum Henry James í The Figure in the Carpet og þær niður-
stöður hans að tækni og hugmyndir, stíll og viðfangsefni verði ekki aðgreind
(„Mynstrið í gólfteppinu, mosavaxið letur.“ Þórðarfögnuður haldinn í tilefni
fimmtugsafmælis Þórðar Helgasonar 5. nóvember 1997, Reykjavík 1997, bls.
49–52).
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:54 Page 447