Skírnir - 01.09.2005, Page 222
Lesið milli línanna
Gyrðir notar gler og gleraugu oft til að vekja athygli á sýn manna eins og
bent hefur verið á.22 Ágúst og Björg hljóta að hafa sömu sýn á veröldina
því þau eiga sameiginleg gleraugu. Hinn gleraugnalausi Allan Quater-
main sá hins vegar veröldina með skrítnum sjónglerjum frá sjónarstað
hins enska aðalsmanns.
Saga Allans Quatermains gefur sögu Sigmars nýja dýpt því hún byrj-
ar og endar á því að fjalla um samband föður og sonar. Sagan hefst á orð-
unum: „Eg er nýbúinn að jarða drenginn minn, aumingja fallega dreng-
inn…“ (3) og í framhaldi af þeim lætur Quatermain í ljós mikla eftirsjá,
segir að hann hefði getað afstýrt því, en hafi valið að láta hann standa á
eigin fótum. Þetta hlýtur að minna á sumardvöl Sigmars og allra þeirra ís-
lensku barna sem hafa verið send að heiman til að þroskast, en um leið
vekur þetta óljósan grun um að Sigmar sé ævareiður yfir að hafa verið
sendur í þessa útlegð. Samband föður og sonar er nú allt í einu orðið að
umfjöllunarefni í Gangandi íkorna án þess að það sé nokkurs staðar nefnt
berum orðum. Þetta má skilja svo að Sigmar beri sig saman við soninn
látna og óski þess að hann væri í sporum hins nýfædda enska drengs með
föður sínum í lokuðu landi. Þetta kallast líka á við vitundina um son hjón-
anna sem er dáinn. Sigmari finnst eins og hann hafi verið svikinn af föð-
ur sínum, skilinn eftir til að deyja.
Með þessu er þó ekki öll sagan sögð, því enn er tileinkun Gyrðis á tit-
ilblaði ónefnd, brot úr sögu Williams Heinesens, Turninum á heimsenda
þar sem öldungur segir frá flöktandi bjarma af ljósi sem hann minnist úr
æsku sinni. Orðin sem vitnað er til virðast einkum vísa til hinna mörgu
heima skáldskaparins, í þessa „veröld handan veraldarinnar“ en ef lengra
er lesið kemur í ljós að sögumaður Heinesens hugsar til gleðistunda við
þetta ljós:
Ef hann setur luktina uppað andliti móður sinnar þá lýsir hún einsog
tunglskin á vangana á henni og munninn og hökuna. Og þá sést ekk-
ert nema þetta andlit – ekkert í heiminum nema þetta milda andlit sem
sker sig úr alráðu myrkrinu.23
valgerður kr. brynjólfsdóttir452 skírnir
22 Ástráður Eysteinsson, „Myndbrot frá barnæsku“, bls. 202; Sveinn Yngvi Egils-
son, „Með náttblindugleraugun“, Tímarit Máls og menningar, 1. hefti 1993,
bls. 110.
23 William Heinesen (þýð. Þorgeir Þorgeirson): Turninn á heimsenda. Reykjavík
1976, bls. 20.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:54 Page 452