Skírnir - 01.09.2005, Page 236
innra samhengisleysis myndanna kallar á samsömunarviðbrögð
áhorfenda, einhvers konar samkvæmisleik þar sem áhorfandi get-
ur unað sér við að spyrða saman myndir, skáldað sögu, jafnvel
fundið raðir, pör eða samhengi.
Við fyrstu sýn gæti áhorfanda virst að Haraldur stundi nútíma
fornleifafræði, sé að skrásetja þekkta og ókunna staði, hversdags-
leg atvik og nytjahluti, eða sýna sjálfsævisöguleg minningaraugna-
blik. Þetta virðast heimilismyndir sem sýna leiki og návist fjöl-
skyldu og barna, íslenska sumardaga og ferðalög um þekktar og
ókunnar slóðir. Hver einstök mynd er sjálfstæður smáheimur, ein-
saga, hluti af frásögn, á sama hátt og kyrramynd úr kvikmynd.
Hver mynd lýsir persónulegu augnabliki sem áhorfandinn getur
túlkað og teygt eftir eigin hvötum. Ef hann kannast við mynd þá
er myndin brot eða hluti af sögu lífs hans. Það er áhorfandans að
leita samhengis, samsama sig og skálda í eyðurnar. Endurvinnsla af
þessu tagi er þó algerlega á ábyrgð áhorfandans og segist Harald-
ur vera mjög meðvitaður um að forðast frásagnarlega uppbygg-
ingu, þema og mynstur þegar hann velur myndir á sýningu.
Innri tími verksins er óljós. Myndirnar eru teknar á ýmsum
stöðum og á ólíkum tímaskeiðum. Sumar eru teknar á Íslandi, aðr-
ar erlendis, en flestar eru í staðlausu samhengi og gætu verið tekn-
ar hvar sem er í hinum vestræna menningarheimi. Haraldur segist
hafa byrjað að taka myndirnar seint á níunda áratug síðustu aldar,
hann sé enn að taka myndir sem falli inn í verkið, sem skarast um
leið við önnur ljósmyndaverk sem hann hefur unnið samtímis, til
að mynda tvo flokka mynda sem hann kallar Heimskautaávexti
(Artic Fruits) og Stjörnuþoku (Galaxy).6
Verkið Stjörnuþoka er innsetning sem Haraldur sýndi árið
2003 í galleríi 8, byggð á ljósmyndum og skúlptúrum, sívalning-
um úr tex einangrunarefni sem notað er til að hljóðeinangra hús.
Fyrsta myndin var tekin í Austurríki á páskum árið 2000 og síðan
hefur hann bætt inn myndum frá öðrum stöðum, án þess þó að
aðgreina myndirnar á nokkurn hátt eða gefa staðfræðilegar upp-
lýsingar um þær.
æsa sigurjónsdóttir466 skírnir
6 Viðtal við Harald Jónsson í ágúst 2005.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:54 Page 466