Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2014, Síða 48

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2014, Síða 48
48 Ljósmæðrablaðið - desember 2014 Jólin fjalla um fæðingu barns í heiminum okkar. Út af fyrir sig þá er barnsfæðing það hversdagslegasta alls, venjulegasta alls. Þú sem ert ljósmóðir hefur helgað henni krafta þína, menntun, færni, sál og hjarta. Göfugra hlutskipti er vart til. Það máttu vita. Jólin snúast um fæðingu barns, frelsarans Jesú. Sú fæðing veldur vatnaskilum, skiptir tímatali okkar. Af því að hann kom með nýtt viðmið til heilla og farsældar fyrir einstaklinginn og samfélagið, lífið og heiminn. Viðmið gullnu reglunnar og kærleikans, viðmið líknar, miskunnsemi og fyrirgefningar. Kennir okkur meðal annars að mildi er ekki veikleiki og að valdbeiting er ekki styrkur. Það er viðmið barnsins sem er í senn varnarlausast alls en leysir úr læðingi það sem öflugast er alls: Kærleikann til Guðs og náungans. Hann sem fæddist í Betlehem sýnir að hinn æðsti máttur í alheimi gerir kjör og málefni barnsins að sínum. Vald, máttur, æðsta vald og æðsti máttur alls bendir á barnið smáa og segir: „Hver sem tekur á móti einu slíku barni í mínu nafni tekur á móti mér.“ Heimurinn má ekki gleyma því, þar sem allt meir og minna er undirlagt dýrkun valds og auðs. Þú sem ljósmóðir gengur að verkum þínum af öryggi og fagmennsku. Venjubundin verk, hversdags rútína. En hver einasta fæðing er einstakur atburður, hvert einasta barn er einstakt. Að taka á móti barni er að taka við gjöf sem skiptir tímanum í fyrir og eftir. Ekkert er sem fyrr. Á bakvið er saga og samhengi móður, föður og fjölskyldu og sem þú veist minnst um. Barnið er hlekkur í lífskeðj- unni frá því sem var, með bros og tár, baráttu og blessun, minningar og kvíða, hið ósagða og óhugsandi, vanda og vonir. Barnið, þetta ferska, nýja líf, sem tengir það sem var og verður. Hvert barn sem þú hjálpar inn í heiminn er vonartákn og framtíðar. Blessun yfir líf og heim, hvað sem öllu öðru líður. Að taka ungbarn sér í fang breytir sýn manns á hið smáa og stóra í lífinu. Ungbarnið, fullt af trausti skimar það eftir augum til að spegla sig í, ljósi sem laðar það að sér, því það er skapað fyrir birtuna. Leit- andi munnur og biðjandi grátur þess og bros er ástarjátning til lífs- ins borið uppi af vissu um og trausti. Ungbarnið skynjar veruleikann sem opinn faðm og tekur á móti opnum örmum og brosandi andliti og treystir því að það fái svar. Þetta er það sem Jesús kallar trú og bæn. Það er ekki flóknara en það. Og þú sem færð að líta þetta undur og greiða því veg inn í heiminn okkar, ljósmóðir, verkfæri lífs og ljóss og líknar. Þvílík gæfa, þvílík blessun. Guð blessi þig og þitt allt og gefi gleðileg jól. Stjörnuskin í barnsauga friður færist yfir og barnið blundar Stjörnuskin vekur draum. Það dimmir að en Drottinn vakir. Það glitra stjörnur í augum þér, fegurð sköpunarinnar speglast í þér. Þú blundar, Guð vakir. Þú vaknar, Guð sér. Þú lifir, Guð brosir við þér. Ljósmæðrajól Hr. Karl Sigurbjörnsson

x

Ljósmæðrablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.