Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Síða 28
Þ o r l e i f u r H a u k s s o n
28 TMM 2013 · 3
síðan kemur reiðarslagið. Jónatan neyðist til að yfirgefa bróður sinn og halda
inn í Þyrnirósadal. Snúður missir bróður sinn á ný og er enn skilinn eftir,
lítill, hræddur og einmana. Þegar hér er komið verður hann að taka ábyrgð
á eigin lífi og gerðum. Hann hrekkur upp af fastasvefni við það að honum
finnst Jónatan hrópa á hjálp, og eftir mikla innri baráttu heldur hann af stað
einn upp til fjallanna til að leita bróður síns. Það sem á eftir fer verður mikil
þrekraun, og Snúður finnur til sífellds vanmáttar og ótta sem hann þarf að
sigrast á, en undir lokin er hann orðinn raunveruleg hetja og verðskuldar
að heita Ljónshjarta eins og Jónatan. Það sem skiptir sköpum er hollusta
hans við bróður sinn og fullvissan um skilyrðislausa ást hans til sín. Þetta
er ferð sem á sér stað inni í innstu sálarfylgsnum. Það að búa henni gervi
ævintýrisins verður leið til að draga það sem þar býr fram í dagsljósið.3
Bróðir minn Ljónshjarta lýtur lögmálum ævintýrisins. En lesandinn
nemur ævintýraheiminn um leið og Snúður og nær þar áttum um leið og
hann, og fær um leið hlutdeild í þeim tilfinningum sem hann vekur. Þessi
ímyndaði heimur sprettur upp sem mótvægi við erfitt hlutskipti, söknuð og
sársauka.
Hér má minna á kenningar austurríska sálfræðingsins Brunos Bettelheim,
en bók hans um gildi ævintýris og ímyndunarafls fyrir tilfinningalegan
þroska barna kom út tveimur árum síðar en Bróðir minn Ljónshjarta.4
Samkvæmt þeim hafa ævintýrin frelsandi áhrif á börn sem búa við angist
og ótta, gefa þeim möguleika til að ná tökum á lífi sínu og tilfinningum. Í
sögum eins og Grimmsævintýrum er fjallað hispurslaust um efni sem eru
bannhelg í venjulegum, „siðsamlegum“ barnabókum, efni á borð við afbrýði
og illsku, einmanaleika og höfnun, ást á lífinu og ótta við dauðann. Áreitin
eru persónugerð, allar aðstæður einfaldaðar, heimsmyndin gerð skýr og
áþreifanleg, teiknuð í svörtu og hvítu, en um leið gefa ævintýrin börnum
verkfæri í hendur til að átta sig á sjálfum sér og umheiminum, vinna úr
árekstrum og óyfirstíganlegum erfiðleikum lífsins.
Vissulega tekst Astrid Lindgren á við hin erfiðustu viðfangsefni í
Bróðir minn Ljónshjarta, einangrun og þjáningu, kærleika og ástvinamissi,
þjáningu og dauða. Og heimur sögunnar er sóttur til ævintýra. Hins vegar
má segja að Elsku Míó minn beri meiri keim af hefðbundnum ævintýrum
með stílfærðri frásögn sinni, draumkenndri framvindu og stílbrögðum að
hætti ævintýra. Í báðum sögunum hefur Astrid Lindgren valið sína eigin leið
eftir því sem söguefnið krafðist.
Frumtextinn er ekki skrifaður á neinu einföldu barnamáli enda þótt
sögumaður sé barn. Setningaskipun er einföld en orðaforði mjög auðugur og
fjölbreyttur. Þannig er skynjun Snúðs á umhverfinu, ekki síst náttúrunni í
fjöllum Nangijala, miðlað með einstaklega myndrænum og lifandi lýsingum.
Margt minnir á ævintýrastíl. En þá er þess að gæta að hefðbundið ævintýri
er ævinlega sagt í þriðju persónu. Hér er það fyrstu persónu sögumaður
sem gengur inn í þennan framandlega heim og miðlar honum og um leið