Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Page 2
2 TMM 2018 · 1
Frá ritstjóra
Á dauða mínum átti ég von fremur en að verða í þriðja skipti ritstjóri þessa
tímarits! En þegar Guðmundur Andri Thorsson var skyndilega kallaður til
skyldustarfa fyrir land og þjóð var einfaldast að láta „gamla ritstjórann“ brúa
bilið uns nýr fyndist – úr því hún var enn ofar moldu.
Flaggskip þessa heftis er – eins og oft og iðulega áður – ljóð eftir Þorstein
frá Hamri, eitt höfuðskálda samtímans sem hefði orðið áttræður þann 15.
mars í vor en féll frá meðan þetta hefti var í vinnslu. Hann valdi ljóðið sjálfur
til birtingar hér. Margir rithöfundar minnast veru sinnar á Kirkjubóli í
Hvítársíðu og kynna sinna af Sigurði bónda Guðmundssyni, þegar þeir nutu
vistar í húsi föður hans, Guðmundar skálds Böðvarssonar. Húsið hans – Hús
skáldsins – hafði Rithöfundasambandið lengi til ráðstöfunar fyrir sitt fólk. Í
ljóðinu minnist Þorsteinn þessa fornvinar síns frá æskuárum og það verður
um leið kveðja hans til okkar.
Óvænt efni í heftinu er tvö ljóðabréf frá Ara Jósefssyni sem féll sviplega
frá ungur maður árið 1964. Jón Kalman Stefánsson fann þessi bréf í fórum
móðursystur sinnar, Jóhönnu Þráinsdóttur, og þakkar ritstjóri innilega fyrir
að fá að birta þau, ásamt greinargerð finnanda. Ari hefur lengi verið í sér stöku
uppáhaldi hjá mér; ég gekk svo langt á sínum tíma að vélrita til eigin nota
bókasafnseintak af ljóðabókinni Nei af því hún var ófáanleg þegar ég þurfti
á henni að halda. Seinna fékk ég tækifæri til að gefa hana út aftur, meira að
segja tvisvar.
Kápumynd Munirs Alawi er af Jósef smið og litla drengnum sem hann
gekk í föðurstað, falleg mynd af föður og barni sem kallast á við grein Jóns
Yngva Jóhannssonar í heftinu um tvö skáldverk eftir Auði Övu Ólafsdóttur,
Afleggjarann og Ör.
Fjöldi ljóða er í heftinu, íslensk, færeysk og víetnömsk, þrjár smásögur,
umsagnir um bækur og eitt hinna vinsælu viðtala Kristínar Ómarsdóttur;
við heimsækjum bæði Flateyri og landamæraborgina syndugu Tijuana og
skoðum andófsmanninn Jón lærða með meiru.
Það var afskaplega ánægjulegt að fá aftur að stússa í Tímariti Máls og
menningar.
Silja Aðalsteinsdóttir