Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Blaðsíða 46
K r i s t í n G u ð r ú n J ó n s d ó t t i r
46 TMM 2018 · 1
bakgrunni. Þetta skýtur dálítið skökku við í ljósi þess að píramídar hafa aldr-
ei verið á þessum slóðum, hvað þá pálmatré í eyðimerkurborginni Tijuana.
Og svo er það vagninn, þetta er bara alls enginn vagn, heldur þykjustuvagn.
Þykjustu vagn, þykjustu sebrahestur, þykjustu hveitibrauðsdagar, þykjustu
knapi í þykjustu borginni Tijuana.
Er hér þá allt í plati? Eða er verið að snúa á túristann? Sebra-asninn hóf
reyndar feril sinn sem ósköp venjulegur asni. Eins konar tákn fyrir „old
Mexico“, ferðafólkið úr norðri virtist sækjast eftir einhverju fornu og ósviknu,
tengslum við hið upprunalega. Margar gamlar ljósmyndir sýna dálæti ferða-
manna á ösnum. Eitt af atriðum Ritu Hayworth á Agua Caliente hótelinu
var einmitt að koma fram með asna í taumi.15 Sagan segir að með gömlu
ljósmyndatækninni hafi asninn oft ekki náðst á mynd og því tóku menn upp
á því að mála rendur á hann.16 Þannig varð þykjustu sebrahesturinn til. En
bak við sebra-asnann var alltaf gamli saklausi sveitaasninn, eins konar tákn-
gervingur fyrir sveitalífið, lífið í Mexíkó með sínar sterku rætur og tengingu
við jörðina. En sveitaasninn saklausi átti eftir að taka á sig enn aðrar myndir
og verða ímynd kynlífssvalls dýra og manna, réttara sagt dýra og kvenna.
Sönnun fyrir því að engar hömlur voru í syndaborginni Tijuana.
***
Hvernig hafa heimamenn brugðist við þessari ímynd borgarinnar, þessum
utanaðkomandi hugmyndum um Tijuana sem syndaborg? Rithöfundar frá
borginni hafa ekki látið sitt eftir liggja. Það eru ekki ýkjur að segja að borgin
sé eitt helsta viðfangsefni rithöfunda þaðan. Flestir hafa þeir fundið mikla
þörf fyrir að kafa niður í borgina sína og rannsaka allar hliðar hennar – með
utanaðkomandi augum, út frá staðalmyndinni en einnig með innri augum
þess sem þekkir borgina og mannlífið þar. Það eru nánast eins og álög að
lifa og hrærast í fyrirfram mótuðum hugmyndum annarra um það hvernig
borgin manns er. Fræðimenn og blaðamenn hafa verið ötulir við að útbreiða
fyrrnefndar hugmyndir um Tijuana. Sumir rithöfundanna hafa nýtt sér
hugmyndina um þykjustuborgina, gengið beint inn í goðsögnina myrku, og
ýmist hafa þeir hæðst að henni eða kollvarpað, aðrir leggja sig eftir að leið-
rétta misskilning, ýta klisjum og staðalmyndum frá og skrifa um óþekktari
hliðar borgarinnar, ósköp venjulega borgara og hversdagslegt líf þeirra í borg
sem gæti verið hvar sem er í heiminum. Hér verður minnst í fáum orðum
á fjóra rithöfunda sem hafa gefið út verk sín á undanförnum áratugum og
viðbrögð þeirra við ímynd borgarinnar.
Luis Humberto Crosthwaite (f. 1962) er einn af þekktari rithöfundum
Tijuana. Hann hefur sent frá sér fjölda verka: skáldsögur, smásögur og alls
kyns stutta texta. Höfundarverk hans er að miklu leyti einhvers konar gagn-
rýninn óður til borgarinnar og landamæra Mexíkó og Bandaríkjanna, bæði í
nútíð og fortíð. Oft kýs hann að líta framhjá goðsögninni myrku og fjallar um