Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Blaðsíða 94
S t e i n u n n L i l j a E m i l s d ó t t i r
94 TMM 2018 · 1
Og hér er ég aftur mætt á völlinn. Nokkrir leikir eru búnir af nýja tíma-
bilinu og brosið er löngu farið af andlitinu.
Það er langt liðið á seinni hálfleik. Mér leiðist svo mikið að ég missi
meðvitund og sofna í hörðum plaststólnum. Ég ranka við mér þegar
Stefán öskrar í eyrað á mér: „Sást’ etta?!“
„Geggjað,“ svara ég og hagræði úlpukraganum til að fela geispa. „Þetta
var klárlega rangstæða eða eitthvað.“
„Rangstaða, elskan, rangstaða.“
Maðurinn fyrir framan okkur er greinilega líka miður sín yfir
atvikinu. Hann steytir hnefann í átt að vellinum og gefur frá sér öskur.
Mér sýnist ég sjá glitta í tattú af KR-merkinu á handarbakinu fyrir neðan
loðna hnúana.
Ég virði fyrir mér hina áhorfendurna.
Vinstra megin við okkur er miðaldra kona sem trommar með fingr-
unum á sætið fyrir framan sig og treður reglulega upp í sig nýju nikó-
tíntyggjói. Mér heyrist hún segja ofurlágt „koma svo“ aftur og aftur en
það gæti líka verið smjattið í tyggjóinu.
Hjá auglýsingaskiltunum er stór maður í alklæðnaði frá 66 gráðum
norður og við hlið hans lítill húfulaus strákur sem gengur á staðnum.
Strákurinn togar með annarri hendinni í dúnúlpu pabba síns og með
hinni í klofið á buxunum sínum.
Hægra megin við þá situr móðir með flísteppi yfir fótunum og skenkir
fjórum sonum sínum kakó úr hitabrúsa. Strákarnir sitja í stærðarröð í
svarthvítum treyjum og fikta í símunum sínum. Hinum megin við þá
er pabbi þeirra sem er ekki aðeins í svarthvítri treyju heldur einnig með
svarthvítan trefil og svarthvíta áritaða derhúfu á höfðinu.
„Er aldrei neinn frægur á svona leikjum?“ spyr ég Stefán.
„Nei, þessir frægu eru á vellinum,“ segir hann án þess að líta af bolt-
anum.
Ég renni augunum yfir leikmennina. Tvö sett af ellefu karlmönnum.
Þeir hlaupa móðir á gulbrúnu grasinu og skyrpa af og til. Rigningar-
dropar renna af kæfulituðum hárlokkunum, rauðu kinnarnar brenna
í næpufölu andlitinu og mjór brjóstkassinn er falinn bakvið lógó stór-
markaðar. Þessir leikmenn líkjast ekkert þeim fáu fótboltamönnum sem
ég kann nafnið á: Messi, Beckham, Ronaldo.
Stefán bætir við: „Stundum mætir Björgólfur á völlinn.“
„Yngri?“
„Nei, eldri.“
„Ó. Mætir aldrei neinn sætur og frægur?“
„Ha? Hmmm, Bogi fréttamaður mætir mjög oft.“