Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Síða 63
S l a g s m á l i n á P l ó g n u m o g u x a n u m
TMM 2018 · 1 63
George Mackay Brown
Slagsmálin á Plógnum
og uxanum
Guðmundur Jón Guðmundsson þýddi
Bændurnir í sókninni voru friðsemdarmenn og á markaðsdögum fengu
þeir sér einn lítinn á Plógnum og uxanum. Vertinn þar var kona sem
hét Madge Brims.
Krá fiskimannanna hét Hvalfangarinn. Þar staupuðu þeir sig þegar
þeir komu í land, kaldir eftir humarveiðarnar.
Sveitamönnunum, fjárhirðunum og plægingarmönnunum lynti prýði-
lega við fiskimennina. Þeir hittust á götunni í Hafnarvogi og göntuðust
stundum hver við annan. Einu sinni eða tvisvar lá við áflogum þegar til
orðahnippinga kom milli hinna yngri, aðallega út af stelpum, en þá gripu
hinir eldri inn í, báru klæði á vopnin og sættu rifrildisseggina. Það var
sjaldan illt á milli manna.
En sveitamennirnir vörpuðu aldrei skugga á dyr Hvalfangarans og
fiskimennirnir stóðu aldrei fyrir utan hjá Madge Brims, þar sem vegg-
irnir voru þaktir skeifum, og veltu því fyrir sér hvort þeir ættu að fá sér
snafs af gamla Orkneyjaviskíinu sem kostaði þrjú penní.
Þegar að því kom að fá sér hressingu eftir erfiðan vinnudag ríkti
strangur aðskilnaður milli þeirra sem erjuðu landið og þeirra sem
stunduðu sjóinn.
Í Hvalfangaranum töluðu menn um tóbak sem hafði verið smyglað úr
hollensku kaupskipi, hvali, lúður sem voru svo risavaxnar að veiðarfærin
rifnuðu, skipsskaða og selkonur.
Um slíkt var ekki talað hjá Madge Brims. Þar var rætt um hesta og
uxa, hver væri snjallastur í að þjálfa fjárhunda, um hafra og bygg og
hvort skynsamlegra væri að mala kornið sitt sjálfur eða fara með vagn-
hlassið til malarans sem var þrjótur. Ungu mennirnir ræddu iðulega um
stúlkur. Sagt var að fallegasta stúlkan í sókninni þetta árið væri Jenny
frá Furss. Jenny var einkadóttir fátæks kotbónda sem hét Sam Moorfea
frá Furss. Sam var svo fátækur að hann hafði ekki einu sinni efni á því