Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Síða 72
Þ ó r d í s H e l g a d ó t t i r
72 TMM 2018 · 1
Þórdís Helgadóttir
Keisaramörgæsir
Það tekur lungann úr síðdeginu en á endanum tekst mér að koma
rafmagn inu aftur á. Haraldur er að borða maís þegar ég kem inn í
stofuna. Ómar er á gólfinu.
„Jæja, þetta blessaðist,“ segi ég við Harald.
„Þetta voru ekki plöturnar,“ segir Haraldur.
„Nei nei,“ segi ég. „Þær eru alveg heilar. Þetta voru ekki plöturnar.“
„Nei, ég vissi það,“ segir Haraldur. „Þær eiga að geta staðið af sér öll
veður.“
„Fimmtíu og níu,“ segir Ómar.
„Já já,“ segi ég. „Þær eiga að geta það.
„Já,“ segir Haraldur. „Enda hvaða gagn væri annars í þeim?“
„Ekki neitt,“ segi ég. „Það væri ekkert gagn í þeim þannig.“
„Sextíu,“ segir Ómar. Ómar er að gera armbeygjur. Hann er ber að
ofan á persnesku mottunni og svitinn dropar af fallega kúptum vöðv-
unum, beint ofan í mottuna.
„Sextíu og ein,“ segir hann.
Ég fer inn í eldhúsið, opna aðra dós af maís og hrúga á disk.
„Sextíu og tvær,“ segir Ómar í stofunni. Þegar ég kem til baka hættir
hann að telja, stendur upp og horfir ásakandi á mig.
„Hvað er þetta?“ segir hann.
„Hmm?“ segi ég.
Ómar bendir á diskinn.
„Bara maís, elskan,“ segi ég.
„Undir maísnum, Helena,“ segir Ómar og röddin er orðin hvell. „Hvað
er undir maísnum?“
Ég sest í sófann við hliðina á Haraldi og narta í matinn. Augun í
Ómari liggja ennþá þung á mér.
„Diskur,“ segi ég.
„Diskur!“ segir Ómar.
„Láttu hana í friði,“ segir Haraldur.