Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Síða 74
Þ ó r d í s H e l g a d ó t t i r
74 TMM 2018 · 1
„Nei,“ segi ég.
„Ferð keisaramörgæsanna?“ segir Haraldur.
„Já!“ segi ég. „Hana!“
„Hún er ekki með Morgan Freeman!“ segir Ómar. „Þú sagðir mynd
með Morgan Freeman.“
„Ég myndi segja að hann haldi þessari mynd alveg uppi,“ segir
Haraldur.
„Sammála,“ segi ég.
Ómar stendur á fætur.
„Þetta á að vera þarna í efstu hillunni undir stiganum niður í kjall-
ara,“ segi ég. „Í svona grænum kassa.“
„Ég er ekki að fara að leita að Ferð keisaramörgæsanna,“ segir Ómar.
„Jæja, vinur,“ segi ég.
„Ég er að fara að kveikja á lampanum,“ segir hann.
„Allt í lagi,“ segi ég.
„Hvað eyðir lampinn miklu rafmagni?“ spyr Haraldur.
Haraldur horfir á Ómar. Ómar horfir á Harald.
„Lampinn?“ segir Ómar. „Lampinn er kominn til að vera.“
„Jæja,“ segir Haraldur. „Ég var bara að spá í hvað lampinn eyddi miklu
rafmagni.“
„Varla nokkru,“ segir Ómar.
„Þetta er nú bara einn lampi,“ segi ég.
„Er það ekki út af honum sem það er alltaf að slá út?“ segir Haraldur.
„Reyndar,“ segi ég.
„Það tekur enginn heilvita maður lampa úr vita og setur hann upp í
heimahúsi,“ segir Haraldur.
Ómar gengur í átt að stiganum.
„Nei, það er náttúrulega ekki sniðugt,“ segi ég.
„Ekki sniðugt,“ segir Haraldur.
Ómar snýr sér við í neðstu tröppunni.
„Ég hef ekki hugsað mér að deyja í þessu lúðalega húsi,“ segir hann.
Við Haraldur göngum frá eftir matinn.
„Góður þessi maís,“ segir Haraldur og skoðar dósina.
„Já, hann er bara góður,“ segi ég. „Fínt merki. Ég vissi ekki að við
ættum svona.“
„Jú jú,“ segir Haraldur. „Við eigum fullt af svona.“
„Það er flott,“ segi ég. „Ég er alveg til í að borða svona áfram.“
„Já,“ segir hann.