Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Síða 75
K e i s a r a m ö r g æ s i r
TMM 2018 · 1 75
Þegjandi sækjum við regntankinn, sigtum vatnið og byrjum að sjóða
það. Ég finn að við erum bæði að hugsa um það sama.
„Sorglegt,“ segir Haraldur meðan hann hreinsar síuna.
„Já,“ segi ég. „Meiriháttar leikari, hann Morgan Freeman.“
„Ha?“ segir Haraldur. „Já, röddin.“
„Ótrúleg rödd,“ segi ég. „Ógleymanleg.“
„Já,“ segir Haraldur.
„En hann var náttúrulega orðinn mjög aldraður og svona,“ segi ég.
„Jú,“ segir Haraldur. „En ég var nú reyndar að tala um mörgæsirnar.“
„Já,“ segi ég. „Sorglegt með mörgæsirnar.“
„Líka með Morgan Freeman,“ segir Haraldur.
„Það er samt ekki það sama,“ segi ég.
„Ekki það sama og útdauð dýrategund,“ segir Haraldur.
Það glamrar uppi á efri hæðinni. Við lítum bæði upp. Það kviknar á
lampanum með háum smelli. Ljósið baðar allt nágrennið, marga kíló-
metra í allar áttir: Mannlaust þorpið, sandana, fjöllin og fjörðinn.
Rústirnar af vitanum líka. Yfirborð vatnsins í kringum húsið endur-
varpar ljósinu inn um eldhúsgluggann svo andlit okkar Haraldar lýs-
ast upp.
„Ég ætla bara að vona að það slái ekki út aftur,“ segir Haraldur.
„Offum hann,“ segi ég.
„Rafmagnið í húsinu þolir þetta náttúrulega ekkert,“ segir Haraldur.
„Eða er það nokkuð?“
„Ég er ekki að grínast,“ segi ég.
„Ætli það sé ekki líka eldhætta af þessu?“ segir Haraldur.
„Eldhætta?“
„Nei, kannski er engin eldhætta,“ segir Haraldur. „Ég er bara að hugsa
upphátt.“
„Það getur alveg verið eldhætta,“ segi ég.
„Ekki mjög mikil samt?“ segir Haraldur.
„Nei,“ segi ég.
Við komum regntankinum fyrir á sínum stað. Síðan sest ég til að gera
við gat á öðru stígvélinu mínu og við laumumst til að deila einum bjór.
„Heldurðu að það sé rétt hjá honum?“ segir Haraldur.
„Rétt? Hvað?“
„Hjá Ómari,“ segir Haraldur. „Að við séum ekki …“
„Síðust?“
„Við hljótum að vera síðust,“ segir Haraldur. „Ég meina.“
Ég hugsa málið. Velti því fyrir mér hvað Haraldur vilji heyra.