Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Side 79
A n d ó f s m a ð u r i n n J ó n l æ r ð i
TMM 2018 · 1 79
nútímann. Auðmennirnir voru í vandræðum með að koma fé sínu í lóg og
eyðilögðu verðmæti til að rýma fyrir nýjum gróðavegum í „shock doctrine“
fimmtándu og sextándu aldar, svo vísað sé til frægrar bókar Naomi Klein um
þá aðferð hins hnattræna stórkapítals að nýta hamfarir (og jafnvel ýta undir
þær) til að ryðja nýjar hagnaðarleiðir.3 Í kvæðinu „Eitt dæmi um það hversu
lukkan misfellur mannkindunum“ segir Sigfús:
Sumir höfðu svo margt bú
að setja varð í eyði þrjú,
en annar hvörki hund né kú
hafði á ævi sinni,
kot fékk enginn félaus mann,
fór svo upp á almúgann.
Og mál er að linni.
/–––/
Sumir báru silki og skrúð
sópuðu allt úr kaupmanns búð,
en aðrir gengu á hákarls húð
og héldu á beining sinni.
Eldurinn undan hófum hraut
þá hofmanns fólkið reið á braut.
Og mál er að linni.4
Þó að gagnrýni Sigfúsar sé bitur í garð auðstéttanna er hún innan marka
þeirrar guðfræðilegu heimsmyndar sem ríkt hafði frá dögum heilags Ágúst-
ínusar og skipti heiminum einfaldlega í hið jarðneska eða veraldlega ríki, þar
sem syndin ríkti, og ríki guðs sem vitaskuld var hið æðsta takmark. Í kvæði
sem ber titilinn „Ein heiðarleg brúðarvísa hústrú veraldarinnar“ sést hvernig
sú tvískipting fer fram í baráttu innra með mönnum:
Heyr þú, veröld, hvað eg tel,
hvörsu sem þér líkar vel,
einum Guði eg mig fel
en undan valdi þínu.
Þú ert brúður, fölsk og flá,
fögur og væn að líta á
en undir niðri grimm og grá;
í geðinu býr það mínu.
Þetta var hinn mannlegi veikleiki gagnvart guðdómnum sem var sá kvarði
sem allt var mælt og metið á. Sigfús ávarpar brúði veraldarinnar svo:
Þú kannt svæfa börnin blind,
það blekkir marga heimska kind,
á þínum hljóðum þykir hind
þó það verstu gegni.