Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Blaðsíða 84
Vi ð a r H r e i n s s o n
84 TMM 2018 · 1
„Orðhelgi“ er annað orð sem Jón virðist hafa smíðað utan um þá hugmynd
sem hann eignar lútherskum, að gjörðir manna skipti engu fyrir sálarheill
þeirra, trúin ein geti bjargað þeim:
Sett var orðhelgi
í stað verka,
gerðu það vorir
góðu þýskir;
mætti það duga
að munnur pulaði
þó að ávextir
aldrei sæjust.
(Fjölmóður 33. erindi í Restans)
Jón hrósar hins vegar kaþólskum með því að hampa góðum gjörðum þeirra,
þeir séu kærleiksfullir og fórni sér hver fyrir annan. Hann persónugerði sam-
bræðing alfrís og orðhelgi og kallaði frú Vild. Hún skýtur upp ófrýnilegum
kolli víða í ritum hans, fulltrúi fyrir siðlaust sjálfdæmi höfðingjanna.
Í huga Jóns var tímabilið frá 1616, þegar hann varð að flýja undan
ofsóknum Ara í Ögri vegna afstöðunnar til Baskavíganna, og fram undir
1640 þegar hann var loksins kominn í skjól Brynjólfs biskups Sveinssonar
austur í Útmannasveit, nánast samfellt mótgangs- eða ofsóknatímabil. Víða
í ritum hans má sjá persónulegar og beiskjublandnar athugasemdir um ýmis-
legt frá þeim tíma. Hluti þessara ofsókna var annars heims eða í það minnsta
með fulltingi slíkra afla. Engan skyldi því undra að víða í ritum sínum hefur
hann varann á gagnvart hugmyndakúgun og ritskoðun samtímans, nefnir að
ekki megi minnast á þetta eða hitt: „En mér fáfróðum er næsta ofþungt um
stóra hluti að tala eða það sem heimurinn vill eg yfir þegi.“12
Svo virðist sem hann hafi, líklega einkum á síðari hluta þess tímabils
(1630–1640), ort kvæði sem varðveist hafa í sérstöku safni sem naumlega var
bjargað frá glötun. Það er aðeins varðveitt í einu handriti sem Sigmundur
Matthíasson Long skrifaði upp í Winnipeg í maímánuði árið 1894. Forrit
þess hefur ekki komið í leitirnar en þó er vitað að það var ritað af Jakobi
Sigurðssyni, afar listfengum skrifara austfirskum frá 18. öld; hann skrifaði
upp fleiri rit Jóns sem varðveist hafa.13 Meira er ekki hægt að segja með vissu
um varðveislu safnsins en inntakið er þó svo gagnrýnið á köflum að ólíklegt
er að því hafi verið flíkað ótæpilega.
Yfirskriftin fremst í safninu er Gamla taska en líklega á hún aðeins
við fyrsta kvæðið sem er 58 ferskeytt erindi. Á eftir fylgja 26 kvæði undir
viki vaka háttum, fjölbreytt að efni. Þau fjalla um tíðarfar, náttúrufar og
lífs nautnir á borð við tóbak. Sum þeirra eru hvöss ádeila á samfélag og sam-
félagshætti.
Upphafskvæði safnsins er lykill að andófi Jóns, því þar birtir hann drætti
úr hugmyndaheimi sínum sem var fjarri viðurkenndri lútherskri heims-
mynd. Hann tíundar hulin öfl af ýmsu tagi og lítur þannig á veruleikann