Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Page 98
H J ö r t U r pá l S S o n
98
ég stóðst ekki mátið lengur, en gekk til mannsins, bað hann að afsaka ónæðið,
sagðist ekki hafa komið þarna áður og spurði þess með hægð sem mig fýsti
mest að vita. Hann svaraði mér fúslega; þetta væri aðeins höfuð sem hann
hefði fundið á ruslahaug þar sem einhver hefði fleygt því. Hann kvaðst hirða
dálítið um garðinn öðru hverju og hefði stungið því þarna ofan í flötina.
iii
Það hafði aðeins verið ætlun mín að líta sem snöggvast inn fyrir hliðið, en
því lengur sem mér dvaldist, þeim mun forvitnari varð ég um garð og mann.
Hann var fremur hávaxinn og grannur, í léttum ljósbrúnum vinnufötum,
með þunna skyggnishúfu á höfði og kvikur í hreyfingum sem voru óvenju
mjúkar. Það sást glöggt hve hann gekk óhikað og skipulega að verki og vann
sér létt. Á fötum hans sá hvergi blett né hrukku þrátt fyrir eðli starfsins, og
hann bar sig þannig að allt fas hans og framkoma markaðist af hógværð og
höfðingleik sem sjálfkrafa vakti lotningu.
Þótt garðurinn lægi í vetrardvala var jörð auð, og á stöllum sínum ríktu yfir
honum sumar frægustu goðverur grískrar og rómverskrar fornaldar. Innan
um þær lifði og hrærðist trjágarðsvörðurinn, höggmyndunum og öllum
hnútum kunnugur í þessari vin í borgarysnum. Það var ekki auðgert að slíta
sig þaðan, og hann fræddi gest sinn um hana með geðþekkum blæ af hóg
værð og ástríðu í senn. Þar kom að ég spurði hvort til væri nokkurt prentað
mál um garðinn. Hann lét ekki mikið yfir því, en sagði þó í fullri hógværð að
hann hefði sjálfur tekið saman dálítinn bækling um hann. Þaðan eru ættaðir
fróðleiksmolarnir um sögu garðsins hér næst á eftir:
Fram að siðbreytingu stóð klaustur munka af Fransiskusarreglu á Kungs
holmen, en það heiti fékk hólmurinn á sautjándu öld. Í aldarlokin eignaðist
Carl Piper greifi land þar, sem hann jók síðar við, og hófst handa um að láta
endurskipuleggja og breyta trjágarði sem enn ber heitið Piperska trädgården
og reisa í honum tvö tvílyft og glæsileg hús og skeifulaga múr með vegg
skotum fyrir höggmyndir, sem einnig eru við hann og konu hans kennd.
Hún hét Christina Törnflycht Piper, en bæði voru þau tengd eða skyld hátt
settu og valdamiklu fólki af nafnkunnum ættum úr efri lögum samfélagsins
í Stokkhólmi.
Múrinn getur enn að líta, en kort og koparstungur frá aldamótunum
1700 gefa góða hugmynd um stærð og útlit staðarins á blómaskeiði hans,
því nú er þar allt minna í sniðum. Þennan lystigarð í stíl barokktímans, með
þráðbeinar raðir af samhverfu og snöggklipptu limgerði, skrautrunna, gos
brunna, garðskála og fjöldann allan af höggmyndum og styttum skipulögðu
nafnkunnir arkitektar og garðyrkjumeistarar, og töluvert starfslið þurfti til
að hirða um hann þegar hann stóð í mestum blóma, enda var hann þá einna
glæsilegastur garða í höfuðborginni.
Eftir að Carl Piper fylgdi konungi sínum í örlagaríkan herleiðangur úr