Orð og tunga - 08.07.2019, Síða 33
Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir: Kjarni tungumálsins 21
sú þróun verður, en það er ljóst að mikil notkun orðabókarinnar gefur
til kynna að brýn þörf er á að uppflettirit af þessu tagi sé til staðar,
reglulega uppfært og öllum aðgengilegt.
5 Lokaorð
Eins og komið hefur fram hér að framan er Íslensk nútímamálsorðabók
ný orðabók, ætluð nýjum tímum og þeim notendum sem leita sér
upplýsinga um tungumálið á vefnum. Orðabókin byggist að verulegu
leyti á margmála veforðabókinni ISLEX og er upphaflegi orðalistinn
fenginn þaðan ásamt mörgum öðrum þáttum í því verki. Við gerð
orðabókarinnar var horft til þess að tungumálið er í stöðugri þróun
og tekur breytingum, og hefur verið leitast við að láta orðaforðann
og notkunardæmin taka mið af því hvernig íslenska er raunverulega
töluð og rituð af málnotendum samtímans.
Nýjungar við gerð Íslenskrar nútímamálsorðabókar eru einkum fólgn-
ar í þremur meginþáttum, sem hver um sig hefur afgerandi þýðingu
fyrir bæði vinnslu og endanlega útkomu efnisins. Þessir þættir eru
í fyrsta lagi vinnsla flettugreina eftir merkingarflokkum, í öðru lagi
notkun textasafna, og í þriðja lagi hönnun fyrir birtingu á vefnum.
Vinnsla flettugreina eftir merkingarflokkum er tiltölulega ný að-
ferð við orðabókavinnu en hún hefur í för með sér margvíslegan
ávinn ing. Nefna má að aðferðin skilar betra samræmi milli skyldra
og hlið stæðra orða auk þess sem hún getur komið í veg fyrir óæskileg
göt í orða forðanum.
Textasöfn hafa skipt höfuðmáli við uppbyggingu Íslenskrar nútíma-
málsorðabókar og er hún fyrsta íslenska einsmálsorðabókin sem er að
verulegu leyti samin með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fást
úr textasöfnum. Þar má nefna tíðni orða í málinu, merkingu þeirra,
stöðu í setningum og föst orðasambönd.
Orðabókin var frá upphafi hönnuð fyrir rafræna birtingu og hefur
framsetning efnisins tekið mið af því. Þess hefur verið gætt að láta
kosti vefbirtingar njóta sín og kemur það m.a. fram í framsetningu
efnisins, notkun margmiðlunarefnis, s.s. hljóðskráa, upplýsingum um
beygingar með tenglum í annan gagnagrunn, fjölda skýringarmynda
ásamt ítarleit í texta orðabókarinnar. Ofangreind vinnubrögð hafa
haft í för með sér að öll orðabókavinnan er fljótlegri og auðveldari en
áður var, til dæmis er ekki lengur þörf á að lesa heilu fræðibækurnar,
stjórnsýslutexta og önnur rit til þess að fanga orðaforðann og merk-
ingar orðanna.
tunga_21.indb 21 19.6.2019 16:55:50