Orð og tunga - 08.07.2019, Blaðsíða 88
76 Orð og tunga
var sú hugmynd ráðandi að hvert mál hefði sína eigin sérstöku skipt-
ingu litaheita, enda er litrófið ein samfelld heild sem felur ekki í sér
nein augljós skil milli litbrigða. Árið 1969 kom svo út bók sem ber
nafnið Basic Color Terms, Their Universality and Evolution. Höfundar
hennar, Brent Berlin og Paul Kay, settu þar fram mjög nýstárlega
kenningu um litaheiti og er hugmynd þeirra þrískipt. Í fyrsta lagi líta
þeir svo á að til sé ákveðinn grunnorðaforði litaheita sem dugi til þess
að lýsa öllu litrófinu. Í öðru lagi telja þeir að kjarni litahugtaks sé mjög
einsleitur frá einu máli til annars, þ.e. að það litbrigði sem í íslensku
myndi kallast „rauðasti rauður“ eða „gulasti gulur“ væri mjög svipað
því sem væri valið í ensku, eða japönsku, og jafnframt í íslensku
táknmáli. Í þriðja lagi settu þeir fram þá hugmynd að breytingar á
skiptingu litahugtaka fylgi mjög ákveðinni þróunarröð (Berlin og
Kay 1999 [1969]). Þessi kenning þeirra kollvarpaði hinni viðteknu
hugmynd um sértæka skiptingu litrófsins eftir tungumálum og hún
varð grunnurinn að algildiskenningu um litaheiti á móti hinni gömlu
afstæðishugmynd. Þegar við berum saman litaheiti og litahugtök í alls
óskyldum málum eins og íslensku og íslensku táknmáli getum við,
eftir því hvorn pólinn við tökum í hæðina, annað hvort gert ráð fyrir
því að munurinn sé mikill vegna þess að uppbygging málanna er mjög
ólík, eða að munurinn sé lítill vegna þess að skynjun fólks er einsleit
sama hvaða mál það talar. Allur munur yrði hins vegar áhugaverður
vegna þess að málhafar íslensku og íslensks táknmáls tilheyra sama
menningarsamfélagi og hafa gróflega sömu menningareinkenni.
Í rannsókninni Evolution of Semantic Systems (EoSS, 2011–2012) var
gögnum safnað í yfir fimmtíu indóevrópskum málum, meðal annars
ís lensku, í því skyni að skoða hvort málfræðileg eða landfræðileg áhrif
væru greinanleg í fjórum merkingarflokkum. Þessir flokkar inni halda
orð yfir líkamshluta, ílát, staðsetningar og liti. Í EoSS-rann sókn inni
var aðferðafræði Berlins og Kays notuð í litaflokknum og sama að-
ferðafræði var nýtt í framkvæmd rannsóknarinnar Litir í sam hengi (LÍS,
2014–2016) þar sem safnað var litagögnum í íslensku tákn máli. Auk
þessara tveggja mála eru einnig notuð EoSS-gögn úr breskri ensku.1 Í
samanburði á þessum þremur málum kemur í ljós að grunn skipting
1 Til rannsóknarinnar Evolution of Semantic Systems fékkst fjárstyrkur frá Max Planck
Gesellschaft. Höfundar þessarar greinar söfnuðu íslensku gögnunum en Linnaea
Stockall þeim ensku og þökkum við henni fyrir afnot af þeim. Rannsóknasjóður
Háskóla Íslands veitti styrk til rannsóknarinnar Litir í samhengi, sem við þökkum
fyrir, og við viljum einnig þakka Rannveigu Sverrisdóttur og Kristínu Lenu
Þorvaldsdóttur fyrir aðstoð í tengslum við íslenska táknmálið.
tunga_21.indb 76 19.6.2019 16:56:00