Orð og tunga - 08.07.2019, Page 102
90 Orð og tunga
upp eins og á Mynd 1. Þegar litaheiti var nefnt valdi fólk reit og hvert
svar var skráð sem beind (e. vector). Dálkarnir voru tuttugu en raðirnar
fjórar og beindirnar skráðar eftir því (t.d. 2,4 = röð tvö, dálkur fjögur,
eða 4,15 = röð fjögur, dálkur fimmtán). Eins og með nafngiftirnar er
hægt að reikna meðaltal beindanna. Ef allir velja sama reit verður
staðsetningin sú sama. Dæmi um það má sjá á litnum ‘hvítur’ á Mynd
3. Ef reitirnir sem fólk velur eru dreifðari færist miðjupunkturinn
(meðaltalið) til þeirrar hliðar sem vegur þyngst. Það má sjá á litnum
‘grár’ á Mynd 3 þar sem þátttakendur velja í flestum tilfellum annan
tveggja þeirra reita sem það taldi gráasta litinn (2,1 og 3,1, eða B0 og
C0 á Mynd 1).
Mynd 3. Meðaltalspunktur kjörlitavals.
Á Mynd 3 sjást meðaltalssvæði þeirra litbrigða sem valin voru sem
kjörlitir fyrir litaheitin á listanum yfir litaheiti sem notaður var í það
verkefni. Í hverjum klasa fyrir sig er meðaltal íslenska táknmálsins
frekar nálægt hinum, nema hvað varðar ‘appelsínugulur’ og ‘brúnn’,
þar sem táknmálið víkur örlítið frá hinum málunum. Erfitt er að
segja til um ástæður þessa en þó má geta sér til að aldur þátttakenda
hafi eitthvað að segja í því efni. Samanburður á þessum málum
við vesturíslensku og ameríska ensku (Þórhalla Guðmundsdóttir
Beck og Matthew Whelpton 2018) leiddi í ljós vísbendingar um að
kynslóðamunur sé á því hvaða litbrigði falla undir þau litaheiti sem
koma fram á seinni stigum þróunarraðar Berlin og Kay (‘brúnn’,
‘grár’, ‘bleikur’, ‘fjólublár’, ‘appelsínugulur’).
tunga_21.indb 90 19.6.2019 16:56:03