Húnavaka - 01.01.2018, Blaðsíða 79
H Ú N A V A K A 77
sr. Þorsteins B. Gíslasonar í Steinnesi og á ég mjög góðar minningar um hann,
konu hans, frú Ólínu Benediktsdóttur, og börn þeirra, Guðmund, Sigurlaugu
og Gísla. Þess má geta að frú Ólína lék á orgel, bæði í Steinnesi og í kirkjunni,
og bæði mamma og síðar Leifur voru í kirkjukórnum.
Hvernig var samkomu- og skemmtanahaldi háttað á þessum árum?
Öll árin mín í Hnausum var Skólahúsið samkomustaður sveitarinnar og þar
voru haldin margs konar mannamót. Síðan var farið að nota Flóðvang,
veiðihúsið við Þórdísarlund, syðst í Vatnsdalshólum, skömmu áður en við
mamma fluttum suður. Í Skólahúsinu héldu kvenfélagskonurnar alltaf
jólaskemmtanir fyrir börnin og þar fór ég fyrst á ball þegar ég varð eldri. Við
skemmtum okkur vel þar og víðar í nærliggjandi sveitum, fórum stundum á
böll fram á Móhellu hjá Ásbrekku í Vatnsdal, vestur í Víðihlíð í Víðidal, á
Blönduós og víðar eftir því sem samgöngur bötnuðu og bílunum fjölgaði. Ég
hef þó aldrei keyrt bíl eða dráttarvél en fór oft með Leifi bróður og fleirum á
skemmtanir á þessum árum. Ungmennafélagsstarfsemin skipti miklu máli,
sérstaklega fyrir okkur yngra fólkið.
Þá má ekki gleyma réttunum. Við smöluðum fjallið á móti fólkinu í Öxl í
réttina við Aralæk til mörkunar og rúnings á vorin og aftur var smalað þangað
á haustin. Þá hitti ég oftast Sillu, Sigurbjörgu Guðmundsdóttur, vinkonu mína
í Öxl. Einnig var tilhlökkunarefni að sjá marga vini, kunningja og ættingja,
flesta af Grundarætt, í Undirfellsrétt á haustin. Hnausar og Öxl höfðu sama
dilkinn og stundum var ég við reksturinn úteftir, í myrkri hluta af leiðinni.
Þetta voru dýrðardagar, einkum þegar veðrið var gott. Eitt sinn fór ég með
Leifi og fleira fólki í skemmtiferð upp í Stafnsrétt í Svartárdal og sá þar m.a.
Svava í Undirfellsrétt í Vatnsdal um það leyti sem hún flutti frá Hnausum. Í vestri, lengst
t.v. grillir í norðanvert Undirfell, þaðan Hálsinn úteftir og að baki hans sést í
Víðidalsfjall. Ljósm.: Bjarni Þóroddsson.