Húnavaka - 01.01.2018, Blaðsíða 119
H Ú N A V A K A 117
Hann sagðist hafa sett biðstöðuna úr fyrstu umferð upp á skákborðið í stofunni
þegar hann kom heim og farið vandlega yfir alla leiki og alla möguleika sem
honum fannst koma til greina í stöðunni en allt kom fyrir ekki, allt virtist leiða
til taps. Hann kvaðst hafa álitið að ekkert væri frekar í málinu að gera, skákin
væri einfaldlega töpuð og gekk til náða. Stuttu síðar hrekkur hann upp við það
að Stella dóttir hans kemur þjótandi inn í herbergið, fleygir sér upp í rúmið og
er sýnilega brugðið, svo hann spyr: „Hvað gengur eiginlega á?“ Hún svaraði:
„Jónas Halldórsson stóð yfir skákborðinu í stofunni.“ Þau litu þangað fram og
þá sást þar vitanlega enginn.
Morguninn eftir leit Jón á biðstöðuna, sá strax nýja leið sem tryggði honum
jafntefli og síðan vann hann að heita mátti hverja skákina á fætur annarri.
Nú hef ég aldrei séð látnum manni bregða fyrir eða orðið var atburða í þá
átt sem hér hefur verið lýst. Á hinn bóginn hef ég lesið allmargar frásagnir af
slíku tagi. Ég tel mig á engan hátt bæran til þess að draga slíkar frásagnir að
meira eða minna leyti í efa eða neita sannleiksgildi þeirra með öllu, þótt þær
kunni að þykja misjafnlega trúverðugar. Oft benda þær til þess að sá sem
þannig birtist allt í einu í mannheimum sé að flytja skilaboð, ýmist um
aðsteðjandi vá eða til lausnar á vanda. Sjaldan eru töluð einhver orð en boðin
hitta eigi að síður í mark. Þótt þetta rími auðvitað vel við frásögn Jóns
Hannessonar hér að framan styðst það hvorki við röksemdir né vísindi af
neinu tagi.
Áður en lengra er haldið þykir mér rétt að greina frá tengslum, þar á meðal
fjölskyldutengslum fólksins sem þarna kom aðallega við sögu. Jósefína Stella,
oftast kölluð Stella, svo sem hér er gert, var dóttir Jóns Hannessonar en hún
var ekki dóttir Ástu Magnúsdóttur, konu hans. Móðir hennar var Elín
húsfreyja á Kornsá í Vatnsdal og þar ólst Stella upp hjá móður sinni fram yfir
fermingu. Þar lauk hún námi í grunnskóla og var kennarinn að minnsta kosti
í einn eða tvo vetur Jónas Halldórsson. Margir nemendur Jónasar hafa í mín
eyru lýst honum sem afbragðs kennara og borið til hans hlýjan hug. Stella
þekkti því Jónas vel og vissi sem aðrir um hið hörmulega slys þegar hann
drukknaði ásamt Ara Hermannssyni. Þegar skákmótið er haldið í janúar-
mánuði 1974 er Stella komin yfir tvítugt, fædd 1952, og er til heimilis hjá föður
sínum og Ástu konu hans á Blönduósi.
Ég þekkti Jón Hannesson nokkuð vel, svo vel að ég taldi mig vita ná-
kvæmlega hvenær hann talaði af fullri alvöru og hvenær í hálfkæringi. En ég
minnist þess ekki að tal hans hafi í annan tíma speglað slíka einlægni og
sannfæringu og þegar hann lýsti atferli dóttur sinnar og svari hennar þegar
hann spurði: „Hvað gengur eiginlega á?“
Stellu bregður að sjálfsögðu hastarlega þegar hún sér Jónas heitinn standa
yfir skákborðinu í stofunni. Hefði svo fleirum farið. Hún þýtur þangað sem
hún veit sig eiga mest traust og kastar sér upp í rúm föður síns. Og hún svarar
afdráttarlaust þegar faðir hennar spyr hvað gangi eiginlega á: „Jónas
Halldórsson stóð yfir skákborðinu í stofunni.“
Ég tel engan vafa leika á því að Jón trúði dóttur sinni fullkomlega. Orð
hennar og æði voru honum næg sönnun. Auk þess var honum nærtækt að