Húnavaka - 01.01.2018, Blaðsíða 180
H Ú N A V A K A 178
hennar er Sigurvaldi Sigurjónsson og börnin eru fimm. Sigurður Gísli, f. 1953,
kvæntur Ingibjörgu Ástu Hjálmarsdóttur og börn þeirra eru fjögur. Ingibjörg,
f. 1954, hún á tvo drengi. Helgi Jóhannes, f. 1955, kvæntur Ölmu Ragnheiði
Guðmundsdóttur og eiga þau þrjú börn. Sigríður Soffía, f. 1964, hún á þrjú
börn.
Í Hvammi bjuggu Þóra og Þorleifur blönduðu búi meðan Þorleifs naut við.
Eftir að Þorleifur var fallinn frá bjó Þóra ein en naut aðstoðar barnabarna
sinna. Síðustu árin í Hvammi bjó hún með dóttur sinni, Sigríði Soffíu. Um
heimili Þóru er sagt að það hafi einkennt einstök gestrisni.
Síðustu fjögur árin sín dvaldi Þóra á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á
Blönduósi og þar andaðist hún. Útför hennar var gerð frá Bergsstaðakirkju
þann 14. október og hlaut hún grafarstað í kirkjugarðinum þar.
Sr. Sveinbjörn Einarsson.
Pálmi Jónsson,
Akri
Fæddur 11. nóvember 1929 – Dáinn 9. október 2017
Pálmi var fæddur á Akri í Torfalækjarhreppi. Foreldrar hans voru hjónin,
Jónína Valgerður Ólafsdóttir (1886-1980), húsfreyja á Akri og Jón Pálmason
(1888-1973), bóndi á Akri, alþingismaður, landbúnaðarráðherra og forseti
sameinaðs þings. Systkini Pálma voru: Ingibjörg (1917-1975), Eggert Jóhann
(1919-1962), Margrét Ólafía (1921-1977) og Salóme (1926-2015).
Pálmi ólst upp ásamt systkinum sínum á Akri. Þar voru það hin almennu,
fjölbreyttu, árstíða skiptu sveitastörf sem hann nam og stundaði. Hann lauk
búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum árið
1948, útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn sem
gefin hafði verið. Tók hann svo við búskap á Akri
23 ára gamall, bóndi var hann áfram og ætíð og
Akur var heimili hans og varnarþing í þeirri
fallegu merkingu. Hann hafði blandaðan búskap
framan af en þegar annríki og fjarvera að heiman
varð meiri hættu þau kúabúskap á Akri. Pálmi var
fjárræktarmaður sem náði frábærum árangri í
sauðfjárrækt. Margir fengu hjá honum lífhrúta.
Það varð því talsvert áfall þegar riða greindist í fé
hans og hann varð að farga fjárstofninum. En
Pálmi hóf ræktunina að nýju og náði hann upp
nýjum úrvals stofni, fór þá sjálfur og handvaldi
líflömb víða, allt frá Snæfellsnesi og austur í Þistilfjörð.
Pálmi var snemma virkur í félagsstörfum. Hann var formaður Jörundar,
FUS í A-Hún. 1963-1964, sat í hreppsnefnd Torfalækjarhrepps 1962-1974 og
Lionsklúbbur Blönduóss var honum kær félagsskapur allt frá 1966.