Húnavaka - 01.01.2018, Blaðsíða 142
H Ú N A V A K A 140
KOLBRÚN ZOPHONÍASDÓTTIR, Blönduósi:
Ökuskírteini mitt er H-1
Nokkur orð um föður minn, Zophonías Zophoníasson, bílstjóra
Þrjár gjarðir á eina krónu
Pabbi fæddist 6. júlí 1906, rúmum fjórum mánuðum eftir að faðir hans dó en
hann lést á afmælisdaginn sinn, 16. mars það ár, aðeins 29 ára gamall. Við
skírnarathöfn 9. desember 1906 var pabba gefið nafn hans, Zophonías. Fyrir
áttu amma og afi annan son, Pálma, sem var fæddur árið 1904.
Amma, Guðrún Pálmadóttir, fæddist í Gautsdal 4. janúar 1878 og lést 26.
júlí 1960. Zophonías Einarsson, föðurafi minn, var fæddur 16. mars 1877 að
Minna-Holti í Fljótum. Þau gengu í hjónaband árið 1903 og hófu búskap á
Æsustöðum, í sambýli við foreldra ömmu, sem þar bjuggu. Á myndum af
þeim má sjá að þau hafa verið glæsileg hjón.
Pabbi sleit barnsskónum á Æsustöðum og fékk þá kennslu sem börnum þess
tíma stóð til boða, nokkrar vikur á vetri í farskóla. Hann tók fullnaðarpróf árið
1920, þrettán ára gamall. Prófið fór fram á Æsustöðum dagana 9. og 10. apríl
og hann hefur staðið sig vel, verið annar hæstur af fimm nemendum með 7,06
í aðaleinkunn, sem telst ágætiseinkunn. Best hefur hann staðið sig í náttúrufræði
með 8,5 en lakast í ritgerð með einkunnina 5.
Í maí 1905 var haldið uppboð eða „aksjón“ eins og það hét í þá daga á
Auðólfsstöðum í Langadal og þar er afi okkar mættur til að kaupa ýmislegt til
Kolbrún Zophoníasardóttir er fædd 9. nóvember 1941 á
Blönduósi, þar sem hún ólst upp hjá foreldrum sínum,
Guðrúnu Einarsdóttur og Zophoníasi Zophoníassyni.
Hún lauk gagnfræðaprófi eftir þriggja ára skólavist á
Eiðum á Fljótsdalshéraði og var síðan einn vetur í Hús-
mæðra skóla Reykjavíkur.
Kolbrún hefur alltaf búið og starfað á Blönduósi, unnið
við skrifstofustörf, bæði í Pólarprjóni og hjá sýslumanninum
á Blönduósi en lengst vann hún á skrifstofu Kaupfélags
Húnvetninga. Hún er gift Guðjóni Ragnarssyni rafvirkja
sem vann nánast allan sinn starfsaldur hjá Rarik á Blöndu-
ósi og eiga þau tvö börn, Kristínu og Ragnar Zophonías.