Húnavaka - 01.01.2018, Blaðsíða 115
H Ú N A V A K A 113
Það má enginn álíta svo, að bryggjan utan við Blönduós verði nokkurntíma
til þess, að kaupskip leggi sig við hana - allmargir sem við mig hafa talað hafa
ímyndað sér það -, þesskonar getur ekki átt sér stað, nema þar sem innilokuð
höfn er, en síður en svo að það sé á Blönduósi. Heldur ekki mega menn ætlast
til að lendingin við hana sé ætíð góð, hversu mikið brim sem er. „Fyrr er gilt
en valið sé“ og það þykist ég eigi að síður viss um, að mörgum manni, er á sjó
þarf að vera á innanverðum Húnaflóa austanverðum, þyki vænt um að eiga
bryggjuna þar fyrir ofan sig. Ef hún bjargar lífi nokkurra ungra manna, þá er
fljótt að vinna sig upp verð hennar frá þeirri hlið skoðað; því uppeldi manna
kostar óneitanlega fé og er ekki hátt virt að meta hvern einn uppkominn á 12
til 1500 kr., auk þess sem mannskaðar hafa ætíð annað óþægilegra og þyngra
í för með sér en fjártjón.
Hraunum í júnímánuði 1895.
E.B. Guðmundsson.
Þeir hafa víst ekki hitt á botnsléttu bátaleiðina
Stefnir 12. okt. 1895
Bryggja langt frá Blönduósi.
Herra Einar Guðmundsson Dbrm. (Dannebrogsmaður) á Hraunum, hefur
með sárri tilfinningu ritað heillanga grein í 14. tbl. Stefnis þ.á., sem á að
leiðbeina ókunnugum mönnum á bryggjuna (við Blönduós); en því miður
hefur þetta mistekist hrapallega, með því að höfundurinn sannar sárlítið með
ritgjörð sinni, og skýrir ekki rétt frá; fyrst að bryggjan sé við Blönduós, svo
seinna smá færist hún norður klungrið, svo menn geta seinast ímyndað sér, að
hún verði að reikistjörnu, og er þá ekki gott á hana að hitta í þoku, fyrir þá er
lenda vilja. Svo kemur Dbrm. með þau ósannindi, að breið og botnslétt
bátaleið hafi verið gjörð í haust er var upp með bryggjunni, en því þverneita
ég, að svo hafi verið, nema ef Dbrm. hefur farið aftur vestur, eftir að ég
skoðaði bryggjubúkka hans, og höggvið og heflað botninn. Sem satt sagt, var
þar bara klungur fyrir báta að lenda báðum megin, en um það sem hefur verið
gert eftir það, að ég kom þar, getur Dbrm. glamrað og gallhamrað við aðra en
mig.
Ég skal nú með sem fæstum orðum skýra frá skoðun minni á þessari
margnefndu bryggju þar vestra. Það getur enginn fengið það út úr ferðasögu
minni, að ég ámæli Húnvetningum fyrir fyrirtækið, það skal ég viðurkenna að
var bráðnauðsynlegt, enda þótt fyrr hefði verið en því held ég fram, að bryggja
þessi sé sett niður á vitlausum stað og með óhaganlegu fyrirkomulagi, sem
varla mun vera um að kenna verkfræðingi S. Thoroddsen, heldur mun Dbrm.,
sem máske álítur sig spakari að viti en Gest Oddleifsson og gamla Njál, hafa
mest ráðið slíku.
Ég þekki nú engan stað í útlöndum, sem líkt stendur á fyrir nema Rönnehöfn