Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Blaðsíða 32
Bragi Ólafsson
„Og verður þessi Sesselja í boðinu?“
„Það er þess vegna sem Ásta er að biðja þig að koma,“ svaraði
ég. „Hún vill að þú hittir þessa konu. Þessi kona var að spyrja hana
um þig, og það eina sem Ásta sagði henni var að þú byggir einn, að
þú byggir hjá móður þinni, og hefðir aldrei þannig séð búið með
annarri konu eða...“
„Að ég hefði aldrei búið með annarri konu?“ greip Aðalsteinn
fram í.
„Já.“
„Og hvað meira?“
„Ásta sagði henni að ef hún vildi vita eitthvað meira um þig þá
væri einfaldast að leita svara hjá ráðgátunni sjálfri, að spyrja hana
í eigin persónu. Og það er þess vegna sem hún er að bjóða þér á
laugardaginn.“
„Hvað myndir þú gera?“
„Ég er að fara í boðið, Aðalsteinn. Það er mjög erfitt fyrir mig
að svara því hvað ég mundi gera, þegar ég er að fara að gera það
sem um ræðir.“
„Ég veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að fara þarna,“ sagði
hann. „Hvað hefur maður upp úr því að fara í veislur hjá fólki?“
Þegar hann sagði þetta varð mér hugsað til þess þegar Aðal-
steinn var að lesa sjálfsævisögu Luis Bunuel fyrir tveimur eða
þremur árum, og líkti sjálfum sér - við vorum heima hjá honum
og hann var að segja mér frá bókinni - við föður kvikmyndaleik-
stjórans, Leonardo Bunuel, sem í minningu sonarins gerði aldrei
nokkurn skapaðan hlut, nema að vakna á morgnana og snyrta sig,
lesa blöðin, og þegar leið á daginn - ég man þetta eins og Aðal-
steinn hefði sagt mér þetta í gær - að athuga hvort hann hefði
fengið vindlana sína senda frá Kúbu; síðan að sinna einhverjum
hversdagslegum erindum, og af og til að ná sér í vín eða kavíar í
bænum. Hans helsta líkamlega áreynsla hefði verið að ganga eftir
götunum - annaðhvort í Zaragoza eða Calanda - með fallega inn-
pakkaða krukku af kavíar í höndunum.
Þegar Aðalsteinn hafði lesið lýsinguna á föðurnum upp úr bók-
inni fyrir mig - þessari bók sem ég hef reyndar verið með í láni
hjá honum svolítið lengi án þess að lesa hana - undirstrikaði hann
líkinguna við sjálfan sig með því að fletta upp á ljósmyndinni af
30
TMM 2005 • 4