Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Page 38
Ingibjörg Haraldsdóttir
myrk og dularfull. Persónulega finnst mér nauðsynlegt að ljóðin snerti
tilfinningar lesandans, hvort sem þau eru hugljúf eða hrollvekjandi eða
eitthvað þar á milli.
Víkjum nú aftur að Ijóðinu sem ég byrjaði á. Heiti þess, Einu sinni
var, tengir þetta ljóð við ævintýri bernskunnar. Ef vel er að gáð má finna
þarna frásögn af litlum bókaormi sem leitar skjóls í ljóðum og sögum
þegar veröldin er dimm og drungaleg - sú frásögn var að minnsta kosti
kveikjan að ljóðinu. Vegurinn frá kveikju til fullskapaðs ljóðs er hins-
vegar oft nokkuð langur og hlykkjóttur og ekki víst að mikið sé eftir af
upprunalegu hugmyndinni þegar skáldið er orðið ánægt með ljóðið og
finnst það birtingarhæft. Líklega er ég eina manneskjan sem kem auga
á litla bókaorminn í þessu ljóði.
í fyrstu bók minni, Þangað vil égfljúga, sem kom út 1974, er að finna
nokkur ljóð sem fjalla einnig um bernskuna. Þau eru öll byggð á minni
eigin reynslu af því að vera barn. Eitt þeirra heitir Kýr í haga. Þar segir
frá fyrstu áheyrendum að skáldskap höfundarins, nefnilega kúnum á
bænum þar sem ég var í sveit og hafði þann starfa að reka kýrnar á beit
á morgnana og sækja þær á kvöldin. Þar segir m.a.:
jórtrandi kýr í haga
lygna augum og hlusta
á ævintýrin mín
Ykkur kann að detta í hug að þetta sé fegruð útgáfa af veruleika sem
hafi í raun verið miklu hversdagslegri, en ég er ekki þeirrar skoðunar.
Ég man ljóslega eftir að hafa samið sögur og jafnvel vísur handa kúnum,
og kyrjað þær upphátt þegar við vorum komnar nógu langt út í haga,
kýrnar og ég, burt frá eyrum fólksins á bænum. Ég sé þær enn fyrir mér,
svo rólyndar og góðar, og heyri þær baula lágt öðru hverju einsog til að
taka undir með skáldinu, og svo sveifla þær halanum og slá taktinn. Ef
ég man rétt voru sögurnar mínar og vísurnar yfirmáta rómantískar og
væmnar en kýrnar létu það ekki trufla sig, þær voru yndislegir hlust-
endur og skyldi enginn vanmeta slíkt públikum, enda segir í síðustu
ljóðlínunni: „Þolinmæði kúnna þrýtur aldrei."
Mér verður stundum hugsað til þessara löngu liðnu bernskudaga minna
vestur í Hnappadalssýslu og finnst þá að ég hafi unað sæl og glöð í
sveitinni frá vori til hausts þessi fjögur sumur sem ég var þar, böðuð
sólskini alla daga; mér finnst ég hafa þambað sindrandi vatnið úr bæj-
arlæknum og nagað puntstrá þess á milli. Þessum minningum mínum
hættir stundum til að renna saman við sögur og kvæði sem í hávegum
36
TMM 2005 ■ 4