Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Qupperneq 42
Ingibjörg Haraldsdóttir
en ég var með öllu ófáanleg til þess. Óttaðist að Valgerður læsi vísuna
upphátt fyrir bekkinn og krakkarnir legðu mig í einelti. Eini maðurinn
sem fékk að sjá vísuna auk mömmu var pabbi, sem skrifaði hana niður
og varðveitti. Þótt ég vildi ekki gera vísuna mína heyrinkunna utan
fjölskyldunnar var ég samt stolt af henni. Feimin og stolt. Ég man alls
ekki eftir að hafa haft áhyggjur af Jónasi og Grasaferðinni hans og þeirri
fullyrðingu að yrkingar þættu ekki prýða kvenfólk. Kannski var ég bara
svona illa lesin.
Seinna rann upp fyrir mér að með kveðjuljóðinu til Austurbæjarskól-
ans hafði ég einnig verið að kveðja bernskuárin. Um svipað leyti flutt-
um við af Snorrabrautinni í Kópavoginn og allt breyttist, unglingsárin
helltust yfir mig með öllum sínum hræðilegu vandamálum og erfið-
leikum sem bægðu burt hverri ljóðrænni hugsun. Eina bókmenntalega
afrek mitt á þessum Kópavogsárum var skáldsaga sem ég byrjaði á og
skrifaði sem óð væri í nokkra daga, þangað til ég las hana yfir og upp-
götvaði mér til skelfingar að ég hafði alveg óvart verið að endurskrifa
uppáhalds Nonnabókina mína, Borgina við sundið. Nonni var að vísu
orðinn að stelpu, en flest annað var óbreytt. Þar lauk ferli þessa skáld-
sagnahöfundar.
Á menntaskólaárunum tók ég upp ljóðaþráðinn á nýjan leik og næst-
síðasta árið mitt í MR var ég orðin svo fífldjörf og framhleypin að ég
gekk á fund ritstjóra Skólablaðsins og gaukaði að honum nokkrum
óendanlega sorglegum ljóðum sem ég hafði ort í nýrómantískum anda
og fjölluðu öll um brostnar vonir, brennda skóga og dánar ástir. Rit-
stjórinn birti ljóðin í blaðinu og mér til undrunar og gleði gerðu þau
þónokkra lukku. Innan skamms voru gáfumenn skólans, jafnaldrar
mínir, farnir að tala um mig sem „skáldkonu vora“ í föðurlegum tón.
Ég var orðin skólaskáld. Á þessum kaldastríðsárum voru ekki sextán
skáld í fjórða bekk einsog þegar Tómas var og orti. í mínum árgangi
vorum við aðallega þrjú, ef ég man rétt, sem ortum í Skólablaðið: Böðv-
ar Guðmundsson, Sverrir Hólmarsson og ég. Böðvar var meistari hins
þjóðlega forms, Sverrir var avantgardið, framúrstefnuskáldið - og ég?
Ég var stúlkan.
Á einhvern hátt erum við alltaf byrjendur, hver ný skáldkona er Júlí-
ana Jónsdóttir om igen, stúlka sem passar ekki inn í hefðina af því að
þar eru fyrir eintómir karlar. Annað hvort lendir hún utanborðs og
reynir bara að gleyma þessu, eða hún setur undir sig hausinn og þráast
við, storkar hefðinni, hvort sem hún er þess meðvituð eður ei.
Mikið væri nú gaman ef ég hefði treyst mér til að nota þátíð í undan-
genginni málsgrein og gefa þannig til kynna að auðvitað væri þetta liðin
40
TMM 2005 • 4