Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Síða 47
Ljóð gripin sem hálmstrá
lengi, en hann sagði eitthvað á þá leið að þegar hann þyrfti að koma
fram sem skáld eða ræða við einhvern um skáldskap sinn þá breyttist
hann í það sem hann kallaði sitt „författarjag“ eða „höfundarsjálf".
Hann sagði ýmsar skemmtilegar sögur af sjálfum sér í þessu hlutverki
og ég hugsaði með mér að þetta skyldi ég reyna að herma eftir karlinum.
Hvort mér hefur tekist það er svo önnur saga.
Þótt mér hafi orðið tíðrætt hér um horfnar stundir og fjarlægar slóðir
verður að viðurkennast að þrjátíu ár eru liðin síðan ég sneri heim og því
ætti ég líklega að vera löngu hætt að tala um þetta, búin að jafna mig
á heimþránni og útlendings-einsemdinni, en einhverra hluta vegna er
eins og nostalgían vilji alltaf loða við mig og mín ljóð, kannski býr hún í
„höfundarsjálfi" mínu. Kannski er hún tíminn sem „vill ei tengja sig við
mig“, eða fjarlægðin sem „sefur í faðmi mínum“, svo maður vitni nú í tvo
skáldkarla í sömu setningunni. Hitt kann líka að vera að ég sé enn hald-
in „firringunni" frægu, þessari bókmenntalegu, sem var í svo miklum
metum einhverntíma á síðustu öld en hlýtur að teljast tímaskekkja nú, á
þessari afþreyingar- og auglýsingaöld, þessum hávaðatímum okkar.
Það væri þó vanþakklæti og beinlínis rangt af mér að halda því fram
að ég hafi snúið heim fyrir þrjátíu árum með eintóman barlóm og enga
veislu í farangrinum. Þvert á móti kom ég forrík heim: með tvö tungu-
mál sem veittu mér aðgang að tveimur stórkostlegum menningarheim-
um, þeim spænska og þeim rússneska, og gerðu mér kleift að framfleyta
mér og mínum með því að bjóða íslenskum lesendum að njóta með mér
nokkurra af þeim bókmenntaperlum sem þessir heimar luma á. Svo ekki
sé nú minnst á þá skemmtun og þá ánægju sem þýðingarstarfið hefur
veitt mér gegnum tíðina, þetta starf sem er einsog skapað fyrir fólk eins-
og mig, pedantíska sérvitringa með fullkomnunaráráttu.
Síðan ég man eftir mér hefur heimurinn verið að farast. Ef það var
ekki atómbomban var það heimsvaldastefnan, kommúnisminn, alnæm-
ið, ofbeldið, kapítalisminn, klámið, mansalið, eiturlyfin, gróðurhúsa-
áhrifin, trúarbragðaofstækið, hernaðarhyggjan, náttúruhamfarirnar,
hryðjuverka-ógnin, offitan, hungrið, vatnsleysið, fuglaflensan, endalok
tungunnar, dauði ljóðsins - svo ekki sé minnst á þá framtíðarsýn sem
við blasir ef hvert kínverskt heimili eignast einhverntíma bíl, ísskáp og
þvottavél... alltaf vofði eitthvað yfir okkur, og vofir enn. Samt erum við
hér ennþá og veröldin er ennþá fögur, farfuglarnir enn á sínu undarlega
flugi og enn eru skáldin að yrkja og finna fyrir þeim „djúpa fögnuði" sem
sköpunartilfinningin vekur. Þrátt fyrir hatrið og stríðin, þrátt fyrir allt.
TMM 2005 • 4
45