Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Page 51
Thor
sem hófst aldrei og endar aldrei: þá vorum við einhvers staðar tveir á
ferð í bíl og ég sagði við hann: Pabbi, var þetta greindur maður sem þú
varst að tala við? Og hann sagði: Já, þetta er mjög greindur maður... En
ég vildi ekki heyra meira um greind mannsins og greip frammí: Segðu
mér frá apanum og skipstjóranum, hvað gerði apinn næst? Og pabbi
þagði kannski á meðan hann beygði og sagði síðan frá því þegar apinn
stökk af öxl skipstjórans og hélt inn í borgina einn síns liðs að fremja
eitthvert apaspil en rataði samt ævinlega aftur heim, eða kannski fann
skipstjórinn hann eða kannski fóru þeir saman að hitta kunningja sinn
línudansarann.
Thor er skáldið. Það táknar til dæmis það að hann getur safnað sam-
an skýjum himinsins í einni setningu. Þegar ég varð eldri og fór að lesa
skáldsögur hans þar sem fólk heitir „málarinn“ og „myndhöggvarinn",
„konan“ og „maðurinn" og ferðinni er heitið um evrópska skógarstíga,
yfirgefnar hallir og einmanalegar milljónaborgir og „maðurinn" er
Maðurinn og Maðurinn er alltaf Einn þá rann upp fyrir mér að ég hafði
með einhverjum hætti orðið til þess að rjúfa einsemd þessa manns því
að skáldið er manneskja sem fer um heiminn og ber í sér heiminn og ber
á herðum sér heiminn. Þegar ég var lítill og við vorum að tjalla okkur í
rallið gerði ég mér reyndar alltaf grein fyrir því að hann spann sögurnar
um apann og skipstjórann jafnóðum og hann var að beygja um götur
borgarinnar og ákveða hvert ferð okkar skyldi heitið næst, ég vissi að
ég var að upplifa tilurð allra undra. Ég var að upplifa sköpunina - sjálft
frelsið. Ég varð ekki júdómeistari þótt vonandi kunni sá dagur að renna
upp að ég geti brugðið fyrir mig osotógari. Ég varð ekki sellóleikari eins
og vafalaust hefði glatt föður minn og því miður varð ég ekki einu sinni
kvikmyndaskáld að hætti Tarkovskís: hann hefur látið sér það allt í léttu
rúmi liggja, hann hefði meira að segja umborið mér það þótt ég hefði
orðið lögfræðingur í Sjálfstæðisflokknum. Rimsírams. Hann innrætti
mér að okkur ber að keppa eftir frjálsræði andans og yfirsýn um þær
lendur sem andinn leiðir mann. Frá honum fékk ég það vegarnesti að
maður verði að hafa í sér í senn apann og skipstjórann.
TMM 2005 • 4
49