Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Síða 69
SORTNAR SENTRÚM
Jaðarskáldið og miðjan
Megas hafnar því að ekki sé leyfilegt að fjalla um aðra en þá sem eru
réttu megin við heimana tvo - uppheima og undirheima. Textaheimur
hans er yfir og undir okkar heimi. Eins og handanheimur Þórbergs. En
hvað með skáldið sjálft, ef maður skyldi nú þverbrjóta allar reglur bók-
menntafræða sem fjalla um dauða höfundarins og halda því fram að
höfundurinn sé sprelllifandi á sveimi um Þingholtin?
Sjálfur tekur Megas sér stöðu utan við hefðina, við hlið þeirra sem
ekki feta hinn beina og breiða veg, ásamt skáldum á borð við Vilhjálm
frá Skáholti, Dag Sigurðarson, Steinar Sigurjónsson og Ástu Sigurðar-
dóttur - fólki sem var frumlegt og braut „reglur" í skáldskap en átti það
ennfremur sameiginlegt að neyta áfengis/lyfja ótæpilega og glíma oft og
tíðum við blankheit, ef ekki hreina fátækt. Það var önnur Reykjavík sem
blasti við þeim en broddborgurunum og þau duldu það ekki í skáldskap
sínum. Dagur fann taugahrollinn í Austurstræti eftir hádegið; Ástu var
næstum því nauðgað af ógeðslegum karli um miðja nótt; Steinar svalt
oft og tíðum heilu hungri á götum þessarar borgar meðan Villi frá Ská-
holti grét beiskum tárum og grét sig þreyttan.
Eins og sagt var um nefndan Villa, þá skipar Megas „sér í sveit manna
og kvenna sem brjóta í bága við skoðanir og lífsvenjur góðborgaranna."8
Líferni hans og það sem hann segir í sumum textum sínum hefur
hneykslað marga, en sérstaða hans og stórbrotnir hæfileikar orsaka það
að lýðurinn streitist við að færa hann af jaðrinum og inn á miðjuna til
þess að geta hampað honum sem góðskáldi.
Páll Valsson gaf í skyn í fyrirlestri á Súfistanum í vor að sennilega
hefði það verið nokkurs konar óskhyggja fjöldans þegar þær sögur
gengu staflaust um borgina með reglulegu millibili að Megas væri dauð-
ur. Að fólk hefði viljað geta hampað honum án þess að láta líferni hans
fara í taugarnar á sér, eins og það gat svo lukkulega gert með Jónas, þar
sem hann sýndi þá kurteisi að deyja ungur.
Örlög uppreisnarmannsins sem er samþykktur af lýðnum kristallast
vel í nafngiftinni kerlingasjarmur, sem Guðbergur Bergsson valdi sjálf-
um sér, meinandi að þegar kerlingar bæjarins væru farnar að tala vel um
skáld, væri það merki um að þau væru á niðurleið í andanum.9
Á tímabili virtist sem hneykslanlegt líferni Megasar væri fyrir bí,
hann var hættur að drekka og dópa og hafði unnið heiðarlega verka-
mannavinnu við höfnina um nokkurt skeið. Vinsældirnar fóru stigvax-
undi, það var sem hann væri tekinn í sátt af öllum lýðnum, hann túraði
um landið við mikinn fögnuð og plöturnar seldust eins og mjólk.
TMM 2005 • 4
67