Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Blaðsíða 77
MEGAS - GAMALL OG N Ý R
frá reynslu stúlku sem getur ekki endurheimt sakleysi sitt eftir meydóms-
missi og upplifir það sem harmleik. Andstæða sakleysis/eðlilegs heims
og hrikalegrar reynslu bakvið „aðrar dyr“ er grundvallaratriði í kvæði
Davíðs, - en hún er ekki til í „Paradísarfuglinum“. Geðveiki og víti eru til
staðar bæði fyrir og á eftir læknismeðferðinni sem aðalpersóna ljóðsins
lendir í. Og þótt þetta hljóti að koma í veg fyrir að hún snúi „heim í hass
og sýru“ er meðferðinni lýst á svipaðan hátt og eiturlyfjaneyslu: „Þeir gáfu
henni truntusól og tungl / og tróðu hana út með spesstöðluðu smæli...“
('Textar, 136). í þessu samhengi verður „paradísarfuglinn“ skelfilegt tákn
fyrir óráð og geðbilun. í kvæði Megasar, ólíkt „Brúðarnótt” Davíðs, er
ljóðmælandinn áberandi - táknaður með persónufornafninu „ég“ - og
segir frá tilfinningum sínum og athöfnum ekki síður en frá reynslu geð-
veiku stúlkunnar. Viðtakandi skilur „Paradísarfuglinn" ekki sem texta
sem svipar til ljóðsins eftir Davíð Stefánsson. Kvæði Davíðs líkist kvæði
Megasar aðeins á yfirborðinu og er eflaust aðeins notað sem það tjáning-
arform sem var hendi næst.
Sama má sjá í textanum „Heilnæm eftirdæmi" (Textar, 129), þar sem
tengslin við íslenska ljóðahefð gufa upp. Einsog Gestur Grímsson bend-
ir á (bls. 41) er textinn skrumskæling á upphafserindi þjóðkvæðisins
„Kvæði af Namaan sýrlenzka“. Höfundurinn heldur sig mjög nálægt
texta frumkvæðisins, varðveitir upprunalegt orðalag í öllum línum og
breytir engu nema einstökum smáorðum - og skýtur þremur aukasetn-
ingum inn á milli lína frumkvæðisins. Alvarlegasta breytingin er að
breyta orðunum „helgt letur“ í „hundingsspott“. En þessi smábreyting
nægir til að gerbreyta anda kvæðisins.
Enn ein aðferð til að afhelga trénuð gildi og sprengja hefðina felst í
því að setja auðþekkta tilvitnun í óvænt samhengi. Skemmtilegt dæmi
um þetta er í textanum „HlíðarendatafT (Til hamingju meðfallið, 1996).
Textinn er kímin frásögn af persónum Njálu (í lokaerindinu er einnig
getið um Gretti), og hann byrjar á línunni: „og þá æpti gunnar: gem-
mér hár úr hala þínum/ hallgerður elskubesta bogstrengurinn hann er
slitinn“ (vitnað eftir textaheftinu í umslagi plötunnar). Hér er auðvitað
vísun í samsvarandi atburð í Njálu, en nú kemur hár Hallgerðar í frægri
beiðni Gunnars úr hala. Slík niðurlæging hetjunnar sem er svipt allri
virðingu er ekki óvenjuleg í ljóðum Megasar. En setningin „Gef mér
hár úr hala þínum“ vísar til ævintýrisins um Búkollu, sem er jafntamt
neytendum íslenskrar menningar og Njála. Heimur íslendingasagna og
ævintýraheimur steypast saman í einni setningu, meira að segja í upp-
hafslínu textans, og þetta hefur þau áhrif á hann að tengsl persóna hans
við tiltekið samhengi losna.
TMM 2005 • 4
75