Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Síða 103
Bókmenntir
í óvænta pössun, amman hringir, móðurbróðirinn hringir, amman hringir
aftur, mamma og pabbi Klöru koma og gera usla, nágranninn í kjallaranum
kvartar nokkrum sinnum yfir hávaða, ókunnug kona hringir og segir Klöru að
systir hennar hafi orðið fyrir slysi. Gestirnir drekka og dansa svolítið meðan
þessu fer fram. Klara fær aðkenningu að taugaáfalli, gerir upp við nágrann-
ann í kjallaranum og horfist í augu við ábyrgð sína á dauða sameiginlegrar
vinkonu þeirra. Hún leggur svo af stað í morgunsárið til að heimsækja syst-
urina á sjúkrahúsið og setja henni stólinn fyrir dyrnar. Sjálf hyggst hún skilja
við Svenna og byrja að búa með Emblu og drengnum. Sumir myndu segja að
þetta væri fyrirsjáanlegt laugardagskvöld í ungri og stressaðri uppafjölskyldu
í Reykjavík - eða hvað?
Auður Jónsdóttir hefur sömu aðferð í verðlaunabók sinni, Fólkinu í kjallar-
anum, og Henrik Ibsen, sagan sem gerist í núinu væri ef til vill ekki athyglisverð
nema vegna samtals síns við fortíðina, sögurnar sem áður hafa gerst verða ekki
aftur teknar, þær eru virkt jarðsprengjusvæði sem persónurnar hljóta að fara yfir
með herfilegum afleiðingum. Þannig er saga Auðar, listilega fléttuð og grípandi.
Klara og Fjóla
í fyrsta kafla bókarinnar stendur aðalpersónan frammi fyrir því að þurfa að
kaupa þvottaefni í kjörbúð og ræður ekki við að taka eina tegund fram yfir aðra.
Þetta myndi einhver segja að væri til marks um að stúlkan ætti við svo alvarleg
innri vandamál að stríða að hún væri hætt að bera af venjulegum hversdagsverk-
um. Hún virkaði ekki í samfélaginu. En hún segist alltaf hafa verið svona, gerir
vanda sinn verufræðilegan, lætur Svenna leysa hann og eyðir málinu.
Strax á eftir kemur fyrsta endurlit Klöru til uppvaxarára hennar og Emblu
sem er fjórum árum yngri. Þær eru í útilegu með Fjólu, bestu vinkonu Klöru,
og foreldrum beggja, drykkjan og rifrildin fara úr böndunum um nóttina
og börnin verða viti sínu fjær af ótta. Þessi minning skýtur upp kollinum
nokkrum sinnum í textanum og er greinilega ein af verstu uppákomunum af
mörgum sem til greina koma. Saga Klöru fer síðan fram og tilbaka í tíma en
heldur sig lengst af í fortíðinni og vill ekki vera í nútíð sinni.
Foreldrar systranna eru alkóhólistar af 68 kynslóðinni og líf þeirra einkenn-
ist æ meira af partýjum, rifrildum, slagsmálum, sjálfsmorðshótunum, framhjá-
haldi, eyðileggingu, öskrum og rugli. Inn á milli er systrunum bættur skaðinn
með suðurlandaferð, fjallgöngum, bókmenntum og tónlist, leik, gleði, ást og
alúð sem enginn veit í raun hvort eru alvöru tilfinningar eða sektarkennd og
uppbætur. Barn alkóhólista er alið upp við þessa óvissu um hvað er hvað og
hvað er þess. Og það mótar afstöðu þess til annarra.
Sálufélagi Klöru er Fjóla. Fjóla er Besta vinkonan með stórum staf. Við hana
virðist Klara mynda sterk tilfinningabönd og í henni virðist hún finna ein-
hvern sem skilur stöðu hennar og tilfinningar. Bernskuminningar hennar eru
bundnar Fjólu sem er alltaf við hlið hennar þegar mest á reynir. Þó er ákveðinn
munur á þeim vinkonunum sem á eftir að draga dilk á eftir sér. Þær tengjast
TMM 2005 ■ 4
101