Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Side 106
Bókmenntir
Múrinn í Kína er ekki venjuleg ferðasaga. Ferðalangurinn er ekki heldur
eins og sannir ævintýramenn sem fara allslausir út í óvissuna. í þessu tilviki er
á ferð ævintýramaður í plati. Hann slær ótal varnagla með Vísakorti, farsíma,
áttavita og öðrum tækjum sem tryggja það að ekkert óvænt geti hent hann
nema kannski bólga í tám og blöðrur á iljum.
Þannig heldur hinn merkingarlausi Halí áfram ferðamáta sínum og leikur
oft á múrinn og múrinn leikur líka á fyrrum Sterka tígur sem fer ekki eftir
veggjunum heldur fram með þeim. Stundum situr hann í farartækjum. Og
þegar Halí stígur út og ætlar að hverfa að upphaflegum tilgangi, þá hefur
múrinn ákveðið að hverfa í jörðina en rekur stundum upp turna.
Þannig fer höfundurinn á kæruleysinu eftir klóka múrnum sem hefur lotið
um aldir veðrum, vindum og atburðum í kínverskri sögu.
Samviskubit kemur upp í höfundinum. Hann þorir ekki að fara í algera
platferð því „... þá verður engin bók skrifuð“ eins og hann segir (48). Hann er
íslenskur í því að óttast eigið umhverfi. Ótti rekur hann áfram, ekki stílvilji,
samanber: „Og hvað heldurðu að fólkið heima segði ma?“ (49)
Óttinn við umhverfi og vini er dragbítur á Halí og íslenskum listum, hvorki
Halí á múrnum né félagar hans á söguþræðinum koma fram sem Sterkir tígrar.
Flestir eru þrúgaðir af samfélaginu, því sama sem Halí furðar sig á í fari Kín-
verja. Hann heldur að kínverski kommúnisminn eigi sök á skorti þjóðarinnar
á einstaklingseðli.
Látum þessa athugasemd höfundar liggja á milli hluta og lítum á hitt, að
allir atburðir sögu hans eru nátengdir hinum dásamlega veruleika. Lesandinn
verður vitni til að mynda að smáatriðum þeirrar eilífu kvenlegu kænsku að
mæður reyna að selja dætur sínar undir vörumerkinu: Go America. Það sama
var algengt hér „þegar kaninn kom í stríðinu“ og fólk flíkaði dætrum framan í
hermenn og sagði: Finnst þér hún ekki flott?
Sviðsmyndin sem höfundurinn setur upp, listin að pússa upp dótturina,
eftirvæntingin, vonbrigðin, áttu hliðstæður hér. Fleiri íslenskar dætur lentu
undir kananum en kínverskar undir þeim sem bar felunafnið Halí. Fleira er
kunnuglegt: Furða dýranna við óvænta komu útlendings á sjónarsvið þeirra.
Viðbrögð íslenskra kúa við að sjá í fyrsta sinn kana var að hlaða niður kúadellu
en kínverskar geitur stirðnuðu upp og fengu harðlífi við að sjá Halí.
í Múrnum í Kína leikur höfundur sér að skoplegum smáatriðum. Glettni
skiptist á við skilningsleysi. Vegna þess að Halí er ungur í ferðinni, um þrítugt
að því er virðist, hefur hann ekki kynnst fátækt á íslandi og sér þess vegna kín-
verska fátækt í rómantísku ljósi áður en hann ákvað að sigra múrinn. Hann
hugsaði um „fátæka, góða fólkið, nægjusemina og fallegt einfalt líf“ (48).
Þegar hulunni er svipt af ljósinu og veruleikinn birtist á göngunni gerir
hinn hálfblindi Halí sér enga grein fyrir að gestrisnin sem hann mætir er ekki
einkennandi fyrir Kína heldur öll akuryrkju- og bændasamfélög í heiminum.
Greiðviknin er ekki gestrisni heldur einvörðungu skylda, að gefa öðrum af
gjöfum jarðarinnar. Fyrst Halí veit þetta ekki verður það framandi og hann
segir:
104
TMM 2005 • 4