Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Síða 108
Bókmenntir
sína tvo, grefur allt fólkið, og sest svo að á bænum hjá stúlkunni Billie sem
er ellefu ára. Hún segir Rafael frá því skömmu síðar að fólkið í gröfinni heiti
„Maríus, Inga og Jenný. Þau stofnuðu barnaheimilið sem býður krökkum að
koma og vera hérna. Lísa, Frank, Karl, heita krakkarnir“ (34). Þetta er væntan-
lega ekki í fyrsta skipti sem lífi Billiear er umturnað, því eitthvað hefur orðið
til þess að hún lenti á barnaheimilinu. Sennilega stríðið. Um foreldrana segir
hún að það geti verið að þau séu dáin (33).
Eftir blóðbaðið í byrjun upphefst daglegt líf á ný eins og ekkert sé sjálfsagð-
ara - a.m.k. á yfirborðinu. Billie fer á fætur morguninn eftir, borðar morgun-
mat, leikur sér með barbídúkkur og er býsna kotroskin. En Rafael er fulltrúi
stríðsins og það þýðir að hversdagurinn einkennist ekki bara af hefðbundnum
verkum: „út að gefa hænunum, mjólka kúna, skoða í matjurtagarðinn“ o.s.frv.
(79). Stríðið er komið í sveitina - ekki með fjölda herflokka, hávaða og látum,
heldur á þann einfalda hátt að byssur og blóðsúthellingar eru orðnar hluti af
daglegu lífi fólksins, ekki bara í þeim tilgangi að slátra dýrum. Frá óhugnaðin-
um er sagt eins og sjálfsögðum hlut en það dregur ekki úr áhrifamættinum.
Þvert á móti. Og hversdagsleikinn í bókinni er ekki einfaldur og því síður
rúðustrikaður eins og sést m.a. á sögum Billiear þar sem greinir t.d. frá for-
eldrum hennar: leikbrúðunni og geimverunni Abraham og lækninum Soffíu
sem saumar annan handlegginn nokkrum sinnum fastan á Abraham því hann
rifnar gjarnan af, t.d. í „áflogum brúðustjórnandanna um hvert skyldi haldið,
heim eða á krá“ (86).
Lesendur Kristínar Ómarsdóttur eru ekki óvanir því að frá ýmsu óvenjulegu
sé sagt fullkomlega blátt áfram. Sá frásagnarháttur einkennir Hér líka. Aðferð-
in fær sérstaklega víða skírskotun, m.a. vegna þess að lýst er heimi barns sem
hefur um fátt annað að velja en taka því sem að höndum ber. Frásagnarháttur-
inn getur líka tengst mögulegum aðferðum fólks til að takast á við að lífi þess
sé umturnað, og hægt er að túlka sögur Billiear sem anga af þeim meiði. Ekki
er ljóst hvort hún hefur búið þær til eða hvort í munni hennar bergmála sögur
sem henni hafa verið sagðar. En hvort sem Billie hefur spunnið upp sögurnar
eða leitar einfaldlega á náðir þeirra má hæglega líta á það sem „varnarmekan-
isma“ (sem eru einmitt gerðir að umtalsefni nokkrum sinnum í bókinni). Sög-
urnar eru þá aðferð hennar til að flýja veruleikann - eða kannski ná valdi á
honum, þessum mótsagnakennda veruleika sem vekur hjá henni spurningar:
Hún var orðin vön mótsögnum. Hengja hænu og syrgja myrtan hund. Á sama
degi að pakka niður vopnum og pakka þeim upp því þeim hafði verið fundinn nýr
tilgangur til mataröflunar í stað hins sem olli höfuðverkjum, jafnvel heilaskemmd-
um, að minnsta kosti dauða annarra. Hvenær hefur maður leyfi til þess? Hvað þarf
marga tilað standa á bakvið einn morðingja svo dráp hans séu réttlát? Eittþúsund
manns, eina milljón, þrjár milljónir? Ef meirihlutinn ræður má meirihlutinn líka
drepa? (119)
Þeir sem standa á bak við morðingjann í sögunni sjást ekki á þeim afskekkta
stað þar sem bókin gerist. Rafael og Billie eru að mestu ein á sviðinu. Ýmsa
106
TMM 2005 • 4