Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Page 121
Bókmenntir
bróðir að koma seint heim að kvöldi, pabbi að slá kirkjugarðinn með orfi og
ljá. En þrátt fyrir birtuna í lýsingum og orðavali ber hvert einasta myndbrot að
sama brunni: skugginn liggur alls staðar í leyni, þessi skuggi sem sögustúlkan
skilur ekki alltaf sjálf, og ýtir frá sér á þeim stundum þegar hún skilur hann
og kemst upp með að láta sem ekkert sé, þessi skuggi sem að lokum leggst
yfir tilveruna þegar móðirin verður að fara í hjartaaðgerð til Danmerkur sem
hún á ekki afturkvæmt úr. Þegar stúlkan er orðin fullorðin og farin að skilja
skuggann áttar hún sig á því að við andlátsfregn móðurinnar settist sólin að
morgni.
Og fullorðin gerir sögukonan uppgötvun:
Enn seinna rennur upp fyrir mér að kannski hefðum við átt að ræða um köstin og
hjartadropana í stað þess að vera alltaf svona kjarkmikil og dugleg. (31)
I látlausri frásögninni kemur skýrt fram, þó hvergi sé sagt, hvernig allir reyna
að láta sem ekkert sé, láta vitneskjuna um sjúkdóminn ekki hafa áhrif á líf
fjölskyldunnar, en ekki síður dunar sú undiralda að í barnshuganum sé það
hugsanlega aðferðin til að láta sjúkdóminn hverfa, skuggann leysast upp og
allt verða gott.
Persónur allar og atvik eru dregin örfáum, tærum og skýrum dráttum
þannig að standa ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans:
Pabbi verður sjaldan reiður en þá hvítnar hann í framan og við látum fætur forða
okkur. Mamma skammast oft en það er fljótt að rjúka úr henni. Amma reiðist varla
nema við köttinn Malakoff. En hún er ekki almennilega reið við hann heldur, fjasar
bara yfir því hvað hann sé vitlaus.
Ég held að amma kunni ekki að vera reið. Einu sinni bauðst ég til þess að kenna
henni það. Þá hló hún bara og sagði að það væru nógu margir hrukkóttir í framan.
Húðin á ömmu er mjúk eins og á ungabarni. (20-21)
Með fáeinum, afar hversdagslegum orðum er tíðarandanum og viðhorfum
samfélagsins lýst út í hörgul:
Húsið er á tveimur hæðum. Við systurnar skúrum uppi á föstudögum og niðri á
laugardögum. Bræðurnir skúra ekki og ég spyr aldrei hvers vegna. (41)
Frásögnin er öll skrifuð í nútíð, sem eykur enn á ljósmyndaáhrifin. En að
auki gefur það höfundinum listilegt svigrúm til að flétta saman nútíð hinnar
fullorðnu konu sem rifjar upp minningarnar og svipmyndirnar frá æskustöðv-
unum svo að rennur saman í órofa heild. Barnung sögustúlkan er ætíð fremst
í frásögninni, barnshugurinn, hið barnslega sjónarhorn, en fjarlægðin og yfir-
vegunin, þroskinn, sem árin hafa fært fullorðnu konunni sem setur textann á
blað ljær honum meiri dýpt og breiðara litróf en barnshugurinn er fær um og
snertir lesandann beint í hjartastað. Gott dæmi um þetta er fjallganga barn-
anna á Bjólfinn (sem segir okkur reyndar að sjávarþorpið sé Seyðisfjörður).
Þau halda kannski að Guð búi í tindinum en þau komast ekki alla leið upp fyrir
TMM 2005 ■ 4
119