Ársrit um starfsendurhæfingu - 2016, Blaðsíða 60
Endurhæfing, lausnir
og tækifæri
Þátttakendunum bar saman um að
endurhæfing hefði haft afgerandi jákvæð
áhrif á bata þeirra, bæði andlega og
líkamlega. Einn sagði: „En, þarna [í
endurhæfingu] fyrst finn ég virkilega að
það var einhver til að hjálpa mér.“ Þessi
niðurstaða um heildstæða og faglega
þjónustu í endurhæfingu er í samræmi við
samanburðarrannsókn Godges o.fl. (2008).
Áhugavert er að viðmælendur töluðu allir
um að lífsreynsla þeirra hefði falið í sér
nýjar lausnir og tækifæri í einhverri mynd.
Einn sagði: „...um leið og ég ákveð að gera
eitthvað... einhvern veginn breyttist eitthvað
[til hins betra]...“ Sumir fóru í nám og aðrir
skiptu um starf í kjölfar veikindanna. Allir
fundu sína leið, eins og kemur einnig fram
hjá Manthei (2007) í eigindlegri rannsókn
hans um reynslu ráðþega af ráðgjöf.
Mikilvægt er að hver og einn nýti möguleika
sína og sé óhræddur við að reyna eitthvað
nýtt, það þarf bara að hefjast handa.
Sveigjanleiki og opinn hugur fyrir nýjum
möguleikum (Bussolari og Goodell, 2009)
koma sér vel á síbreytilegum vinnumarkaði
þar sem einstaklingarnir þurfa í meira mæli
að bera ábyrgð á eigin starfsferli og gæta
hagsmuna sinna (Guðbjörg Vilhjálmsdóttir
og Guðrún Birna Kjartansdóttir, 2009).
Mikilvægi ráðgjafar og
virkrar hlustunar
Í frásögnunum komu fram skýr dæmi um
hvað það getur hvatt og hjálpað að „læra að
tala“ um vandann, deila reynslu sinni með
öðrum sem eru í sömu sporum og hversu
jákvætt það er að fá hvatningu frá þeim.
Þátttakendur lýstu hversu erfitt þeim þótti
það þegar ekki var hlustað á þá og efast
var um orð þeirra. „Því að ég þekki það...
að það sé ekkert hlustað.“ Þegar einhver
sannarlega hlustar, þá er það allt annað:
„Hann [læknirinn] hlustaði á mig... sem mér
fannst alveg frábært.“ Áðurnefnd rannsókn
Manthei (2007) endurspeglar vel mikilvægi
þessara þátta. Hjálplegt getur verið fyrir
einstaklinginn að segja sína sögu. Það
auðveldar honum að tengja saman fortíð
sína, nútíð og framtíð. Þannig nær hann
að endurskapa sögu sína og finna nýjar
lausnir. Í ráðgjöf skiptir miklu máli í því að
styðja og hvetja ráðþega við mótun nýrra
hugmynda um sig og möguleika sína og
aðstoða þá við að finna nýjar leiðir (Patton
og McMahon, 2006). Flestir þátttakenda
upplifðu skort á ráðgjöf og leiðsögn, bæði
um hagnýt mál og sálrænan stuðning. Einn
þátttakandi sagði: „En ég sé svona eftirá...
eftir þeim tíma að hafa bara ekki notað hann
til einhvers bara þroskandi, fara í nám eða
eitthvað.“ Niðurstöður okkar sýna mikilvægi
ráðgjafar og stuðnings í endurmenntun og í
starfsendurhæfingu, sem er í samræmi við
niðurstöður úr öðrum rannsóknum um gæði
ráðgjafar og ráðgjafarsambands (Plant og
Turner, 2005).
Mikilvægi nærveru og
umhyggju
Áhrifamestu lýsingarnar í viðtölunum snérust
um umhyggju eða skort á henni. Einn sagði
um reynslu sína af umhyggjuleysi: „Þessari
manneskju var náttúrulega nákvæmlega
sama um það hvernig mér leið...“ Sami
þátttakandi lýsir gagnstæðu viðmóti frá
öðrum fagmanni og ber saman: „...þessi
kona... vissi hvað hún var að gera... Hún
var að hugsa um það hvernig mér leið...“
Þátttakendur lýstu einnig þörf sinni fyrir
umhyggju og nærveru á erfiðum stundum.
Einn þátttakanda sagði: „Þú þarft ekki að
... gera eitthvað. Bara að vera.“ Eftir reynslu
sína töldu þátttakendur að fagfólk þyrfti í
senn að sýna tilfinningalega næmni fyrir líðan
annarra og faglega færni, eins og Sigríður
Halldórsdóttir, (2006) skilgreinir faglega
umhyggju. Þátttakendur bentu ennfremur
á að fagfólk þyrfti að gefa eitthvað af sjálfu
sér persónulega því þeir þyrftu ekki aðeins
að sýna sína faglegu hlið heldur einnig
sína mannlegu hlið. Einn þátttakandi talaði
fyrir marga þegar hann sagði: „Það er ekki
nóg að vera góður fagmaður ef mannlegu
samskiptin eru ekki í lagi“ og að „það skipti
öllu máli hvernig viðmót persónan sýnir
þér, hvort hún er hlý og gefandi.“ Að mati
þátttakenda sýnir góður fagmaður velvild
og einlægan áhuga á velferð einstaklingsins
og kemur fram af umhyggju og virðingu án
þess að dæma eða sýna yfirburði.
Lokaorð
Megin tilgangur þessarar rannsóknar
var að draga fram hvernig hægt væri að
bæta þjónustu við fólk sem er að takast á
við skerta starfsgetu. Áhersla var lögð á
endurhæfingu, bataferli fólks og leið þeirra
út í lífið á nýjan leik. Í rannsókninni kom fram
nauðsyn þess fyrir einstaklinginn að hafa
einn tengilið sem fylgdi honum í gegnum
bataferlið þannig að samfella myndaðist í
stuðningi og ráðgjöf. Betra samstarf á milli
kerfa og stofnana myndi ennfremur stuðla
að betri þjónustu. Á síðustu árum hefur
aukin og bætt starfsendurhæfingarþjónusta
komið að verulegu leyti til móts við
þessar þarfir fyrir samfellu og stuðning á
endurhæfingartímabilinu, sem lýst er í
rannsókninni. Stuðningur frá sérfræðingum,
jafningjastuðningur og stuðningur fjölskyldu
og vina var ómissandi fyrir einstaklingana
þegar þeir voru að takast á við bataferlið.
Ennfremur sýndi sig hversu mikilsvert það
er fyrir einstaklinginn sjálfan að vera virkur.
Símenntun og endurmenntun höfðu líka
mikið að segja. Í tengslum við endurmat
einstaklingsins á möguleikum sínum
hvað varðar menntun og atvinnu skiptir
góð náms- og starfsráðgjöf miklu máli.
Rannsóknin dró fram mikilvægi viðmóts
fagfólks þegar einstaklingurinn þarf á
stuðningi að halda því aðgát skal höfð í
nærveru sálar. Einstaklingur sem er að
takast á við skerta starfsgetu, vegna veikinda
eða slyss, upplifir aukið varnarleysi í þessum
tilvistarlegu breytingum og þarf góða ráðgjöf
og leiðsögn frá sérfræðingum sem sýna
virðingu og eru allt í senn umhyggjusamir,
faglegir og mannlegir.
Á síðustu árum hefur
aukin og bætt starfsendur-
hæfingarþjónusta komið að
verulegu leyti til móts við þessar
þarfir fyrir samfellu og stuðning á
endurhæfingartímabilinu, sem lýst
er í rannsókninni.“
60 virk.is