Bændablaðið - 18.10.2018, Síða 2
Bændablaðið | Fimmtudagur 18. október 20182
Þröstur Heiðar Erlingsson og
Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir,
bændur í Birkihlíð í Skagafirði,
kynntu eigin framleiðslu á bás
Matís á íslenskum landbúnaði
2018 um síðustu helgi. Þau voru
hæstánægð með viðtökurnar.
„Þetta er mjög flott sýning og
aðstandendum til sóma,“ sagði
Þröstur.
„Við erum hér að kynna
nautakjötið okkar, en annars erum
við líka að framleiða lambakjöt í
okkar heimavinnslu. Þar erum við
að framleiða ýmsar afurðir og berjast
við að selja allar okkar afurðir sjálf.
Þó látum við sláturhúsið stundum
vinna fyrir okkur. Við erum með 160
kindur og rétt um 80 mjólkandi kýr.
Þá erum við með nautaeldi, enda
látum við alla gripi lifa.“
Með mun strangari regluverk en
þekkist í okkar nágrannalöndum
Þröstur segir að í Birkihlíð sé
kjötvinnsla sem uppfyllir öll
lög og reglur. Honum finnst þó
reglugerðarsmíðin ganga allt of
langt og mun lengra en þekkist í
okkar nágrannalöndum. Því hafi
þau tekið höndum saman við Matís
við að reyna að þoka regluverkinu
á skynsamari brautir.
Þau komust heldur betur í
fréttir fyrr í þessum mánuði er
þau framkvæmdu heimaslátrun í
samstarfi við Matís. Farið var með
kjötið á Bændamarkaðinn í Hofsósi
þar sem afurðirnar voru seldar í
trássi við reglugerðir. Kjötið var
síðan innkallað en þess má geta að
enginn hefur skilað kjötinu.
„Það er gert í öllum löndunum í
kringum okkur að slátra heima og
vinna kjötið í svona kjötvinnslum,“
segir Þröstur.
Dæmi um jafnvel enn ýktari
aðferðir má sjá í grein með myndum
af grunnskólabörnum í Noregi að
kynna sér heimaslátrun í síðasta
Bændablaði. Þar var slátrað inni í
fjárhúsi, undir eftirliti dýralæknis,
en greinilegt að kröfurnar voru ekki í
neinu samræmi við þær sem íslenskir
bændur verða að undirgangast.
Samt lúta Norðmenn sömu EES
reglugerðum og Íslendingar.
„Þar að auki er mun heitara í
þessum löndum en hjá okkur sem
gerir vinnsluna viðkvæmari og
við búum á eyju og erum laus við
ýmsa óværu sem aðrir þurfa að
glíma við. Að mínu mati er þessi
stífni hér ótrúleg þröngsýni þótt við
verðum auðvitað að vera með alla
umgjörðina í lagi,“ sagði Þröstur.
„Svo má ekki lóga lambi við
góðar aðstæður heima við og verka
það sjálfur til sölu. Þetta er mjög
skrítið, ekki síst þar sem neytendur
kalla mjög eftir svona afurðum. Við
höfum sterklega orðið vör við það
á þessari sýningu, það hefur mikið
verið spurt um heimaslátrað kjöt.“
Heimavinnsla lykillinn að
bættum hag bænda
Þröstur segir heimavinnslu vera
lykilinn að því að bændur geti náð
meiri virðisauka af sinni framleiðslu.
En það er samt lítið gagn í því að
koma sér upp heimavinnslu ef
afurðastöðvarnar hækka sífellt
heimtökugjaldið og koma þannig í
veg fyrir að bændur geti tekið kjötið
sitt heim. Þess vegna verðum við að
fá aðra leið í sambandi við slátrun.
„Það er himinn og haf á milli þess
sem bóndinn fær fyrir að leggja inn
í afurðastöð og þeirrar framleiðslu
sem hann getur selt sjálfur. Ég ætla
ekki einu sinni að ræða það, svo
mikill er munurinn. Þetta getur
algjörlega skipt á milli feigs og
ófeigs, t.d. í sauðfjárræktinni. Ég
tala nú ekki um þá sem búa afskekkt
og geta ekki stundað vinnu fyrir utan
búið. Þarna gætu þeir klárlega búið
sér til margfalt meiri verðmæti ef
rýmkað yrði um reglurnar. Það getur
hæglega snúist um það hvort menn
lifa af í þessari grein eða ekki.
Við erum ekki að reyna að koma
höggi á neinn heldur viljum við bara
að bændur hafi eitthvert val fyrir
sínar vörur. Milliliðalaus viðskipti,
frá bónda til neytenda, það eru óskir
neytenda, það skynjum við vel hér
á sýningunni.
Menn hafa tækifærið en er
bannað að nota það. Ég held að
þetta samstarf okkar við Matís hafi
sýnt fram á hvað þetta er galið.
Nú er það bara alþingismanna að
standa í lappirnar og lagfæra þetta
umhverfi.“
Hann segir að sú uppákoma
sem átti sér stað við heimaslátrun
í Birkihlíð fyrr í mánuðinum hafi
einfaldlega verið framkvæmd til að
sýna fram á fáránleika regluverksins.
„Neyðin er bara orðin þannig,
t.d. í sauðfjárbúskapnum, að það
verður að brjóta lög ef menn ætla
að komast af. Neytendur og bændur
kalla eftir að regluverkið verði sett
upp af skynsemi, en ekki bara
fyrir kerfið sjálft,“ segir Þröstur
Erlingsson. /HKr.
– Sjá nánar á innsíðum
FRÉTTIR
Mynd /HKr.
Sýningin Íslenskur landbúnaður 2018 haldin í Laugardalshöll eftir 50 ára hlé:
Mjög flott sýning og aðstandendum til sóma
– segja bændur í Birkihlíð í Skagafirði sem kynntu þar eigin kjötframleiðslu
Ræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og formanns VG á flokksráðsfundi Vinstri grænna:
„Leiðigjarnt stef að tala innlendan landbúnað niður“
– Við þurfum að tryggja ungum bændum frelsi til að fara ótroðnar slóðir í matvælaframleiðslu
Katrín Jakobsdóttir forsætis-
ráðherra kom víða við í ræðu sinni
á flokksráðsfundi Vinstri grænna
sem haldinn var fyrir skömmu.
Þar sagði Katrín meðal annars
að það væri orðið leiðigjarnt stef
þegar menn kappkosta að tala
niður innlendan landbúnað eins
og hann sé þurfalingur í íslensku
samfélagi þegar hann er einmitt
undirstöðuatvinnugrein til þess
að Ísland geti orðið raunveruleg
matarkista.
Í upphafi ræðu sinnar sagði
Katrín að verkefni frá kosningum
hafi verið ærin enda hefði flokkurinn
sett fram skýra stefnu með þremur
höfuðatriðum sem voru: uppbygging
samfélagslegra innviða til að jafna
lífskjör og bæta hag almennings,
aukið samráð um stórar pólitískar
ákvarðanir og raunverulegar
umfangsmiklar aðgerðir í
loftslagsmálum. Umhverfismál og
landbúnaður komu talsvert við sögu
í ræðu Katrínar og sagði hún meðal
annars í ræðu sinni:
„Í tíð þessarar ríkisstjórnar
hafa orðið straumhvörf í
fjárveitingum til loftslagsmála
og í stefnumörkun. Ríkisstjórnin
kynnti í byrjun september
fyrstu áfangana í metnaðarfullri
aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Þar munu landgræðsla, skógrækt
og endurheimt votlendis verða
fyrirferðarmikil til þess að binda
aukið kolefni en í stjórnarsáttmála
er kveðið á um að Ísland eigi að
verða kolefnishlutlaust ekki seinna
en 2040. Annar stór áfangi eru
orkuskipti í samgöngum þar sem
stórátak verður í uppbyggingu
fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður
tímaáætlun um að ekki verði fluttir
inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni
eða olíu eftir 2030. Ný skýrsla um
loftslagsbreytingar sýnir gjörla að
aðgerða er þörf – og víðar en á
þessum tveimur sviðum.“
Katrín sagði einnig: – „Við
þurfum að huga að því hvernig
við getum orðið mun öflugri í
matvælaframleiðslu til að draga
úr vistspori innfluttra matvæla
og verða sjálfum okkur nægari í
matvælaframleiðslu. Við þurfum
að tryggja ungum bændum
frelsi til að fara ótroðnar slóðir
í matvælaframleiðslu, tryggja
að bændur eigi ólíka valkosti í
framleiðslu sinni, geti selt beint frá
býli og greiða fyrir því að þeir geti
sinnt nýsköpun og þróun.
Leiðigjarnt að tala niður
innlendan landbúnað eins og
hann sé þurfalingur
Það er orðið leiðigjarnt stef þegar
menn kappkosta að tala niður
innlendan landbúnað eins og
hann sé þurfalingur í íslensku
samfélagi þegar hann er einmitt
undirstöðuatvinnugrein til þess
að Ísland geti orðið raunveruleg
matarkista. Öll okkar stefnumörkun
á að miðast við þá heildarsýn
að við drögum úr vistsporinu,
minnkum sóun, eflum nýsköpun í
matvælaframleiðslu og tryggjum
matvæla- og fæðuöryggi. Sýna þarf
stórhug í hvers konar landbúnaði
og sjávarútvegi og setja niður
matvælastefnu fyrir Ísland sem bregst
við þeim raunverulegu áskorunum
sem heimurinn stendur frammi fyrir.
Atvinnulíf í sátt við samfélag
og umhverfi
Atvinnulíf í sátt við samfélag og
umhverfi er kjarni okkar stefnu;
kjarni hugmyndafræði sjálfbærrar
þróunar. Við eigum einstakt tækifæri
til að ráðast í breytingar sem munu
gera íslenskt samfélag sjálfbærara.
Þar skiptir öllu máli það sem við
erum að gera í þessari ríkisstjórn,
sú kúvending sem nú hefur orðið í
þessum málaflokki, mestu áskorun
aldarinnar; loftslagsmálunum.“ /VH