Bændablaðið - 07.06.2018, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. júní 2018
Línuborun með öfluga beltavél sem sagar sig í gegnum holt og hæðir:
Þegar tíminn skiptir máli og frosin
jörð og klappir eru engin fyrirstaða
– Jarðrask í lágmarki og hægt að bora undir vegi, ár og garða
Línuborun í Reykjavík hefur
sérhæft sig í lagningu kapla og
röra í jörðu og er m.a. með öfluga
vél af Marais 500 gerð til þess, sem
sagar sig í gegnum jarðveginn. Er
þetta eina vél sinnar tegundar á
Íslandi en sem dæmi þá standa
Frakkar mjög framarlega á þessu
sviði og hafa tekið á milli 600 til
700 slíkar vélar í notkun.
Hörður Gunnarsson verkefnastjóri
og Ketill Björnsson, fjármálastjóri
hjá Línuborun, segja vélina að
því leyti sérstaka að hún er mjög
afkastamikil og skilur eftir sig mjög
lítið rask. Þá er hægt að leggja bæði
rör og strengi jafnóðum í skurðinn
sem fræstur er, sandbera botn og loka
í sömu ferðinni.
„Það skiptir allt máli við að
stytta verktíma því tíminn er líka
mikils virði. Við getum með okkar
búnaði tryggt mikinn vinnuhraða,
hagkvæmni og lágmarks jarðrask,“
segir Hörður.
Marais 500 er með 6 strokka 510
hestafala (375kW) dísilmótor. Hún
vegur um 42 tonn og getur borið 6
tonna kapalrúllu á framgálga um leið
og hún grefur. Hún getur sagað skurð
sem er frá 23 til 55 sentímetrar að
breidd og allt að 1,6 metrar að dýpt.
Starfsmenn Línuborunar
eru nú 10 talsins, en Björn
Oddsson er eigandi fyrirtækisins.
Verkefnin eru fjölbreytt, eins
og jarðvegsskipti, steypusögun
við byggingarframkvæmdir og
strengjalagnir með sögun og borun.
Auk stóru Marais sögunarvélarinnar
hefur fyrirtækið yfir að ráða vörubíla
með krönum og nokkrar gröfur af
ýmsum stærðum.
Klappir engin fyrirstaða
Línuborun hefur verið með verkefni
víða um land og hefur m.a. verið
í viðræðum við orkuveitufyrirtæki
víða um land vegna mikilla verkefna
við lagningu jarðstrengja og
ljósleiðara.
„Víða eru fyrirtæki að vinna
mikið í erfiðu landslagi og þurfa
víða að fara í gegnum klappir,“ segir
Hörður. Segir hann að með þeirra
búnaði séu klappir engin fyrirstaða
því vélin sagi sig einfaldlega í
gegn. Þá er hægt að ráða breidd
skurðar, allt eftir því hvað eigi að
leggja í hann. Við niðurlagningu á
rörum og strengjum er síðan hægt
að stýra þeim á mismunandi dýpi
og staðsetningu í skurðunum, allt
eftir ósk viðskiptavinar. Hægt er að
leggja marga strengi í einu og einnig
rör. Vélin hefur m.a. verið notuð við
að saga fyrir nýju rafdreifikerfi við
flugbrautir á Keflavíkurflugvell fyrir
Isavia. Þetta voru tæpir 14 km með
allt að 80.000 metrum af rörum og
köplum.
Borað undir vegi, ár og tún
„Þá erum við með Ditch Witch
jarðbora til að bora undir vegi og
ár. Hefur stærri borinn okkar (20
tonn) verið staðsettur fyrir austan
Kirkjubæjarklaustur að undanförnu
við að bora fyrir strengi undir á um
120 metra leið fyrir RARIK. Hægt
er að stilla borunina á mismunandi
dýpi, allt eftir óskum viðskiptavina.“
Þessi bor getur borað fyrir allt að 650
millimetra sverleika.
Hörður segir að oft hafi sú leið
verið farin í gegnum tíðina að hengja
strengi utan í brýr. Slík vandamál
séu úr sögunni þegar borað sé fyrir
strengjum undir árnar. Er fyrirtækið
þannig í tvígang búið að bora fyrir
rörum undir kapla sem lagðir voru
undir Skaftá.
Borað undir Hljómskálagarðinn
„Þá vorum við að vinna við
að bora fyrir raflögnum undir
Hljómskálagarðinn í Reykjavík.
Þar er borað út frá einum stað á
nokkra tengistaði sem koma á
upp til að nota við samkomuhald
á nokkrum stöðum í garðinum.
Þarna þarf ekkert að raska
yfirborði Hljómskálagarðsins eins
og annars væri ef grafið yrði með
hefðbundnum aðferðum. Við borum
um 140 metra vegalengd undir gras,
tré og gangstíga. Svona verk tekur
ekki nema tvo daga.
Að sjálfsögðu er svona búnaður
ekki ódýr í vinnu, en hann sparar
mikinn tíma og jarðrask. Í heild
er því hægt að spara umtalsvert í
öllu umstangi og tíma sem fylgir
lagningu strengja með hefðbundnum
skurðgreftri.“
Getur klárað tvo kílómetra á dag
„Við sæmilegar aðstæður er þessi
vél að saga um tveggja kílómetra
skurð á dag. Ef ég ætti t.d. að leggja
strengi inn Fljótshlíðina um 12 km
að Teigi, sem er að segja má minn
uppeldisstaður, þá værum við ekki
nema 6 daga að klára slíkt verk sem
annars tæki mun lengri tíma. Ef það
þarf að sanda í botn skurðar, þá er
einfaldlega hengdur á tækið búnaður
til að sandbera og moksturstæki fyllir
á jafnóðum. Þegar upp er staðið er
hagkvæmnin sem hægt er að ná með
okkar búnaði mjög mikil. Ekki er
þörf á eins miklum mannskap og
mikill sparnaður getur verið á olíu
auk þess sem mikill og dýrmætur
tími getur sparast,“ segir Hörður.
Hægt að vinna allt árið og frosin
jörð getur verið kostur
Bendir Hörður á að með þessari
risasög, þá sé frosin jörð heldur ekki
fyrirstaða. Því gæti jafnvel hentað
betur að saga skurði að vetrarlagi þar
sem fara þurfi í gegnum tún í sveitum.
Frosin jörð tryggi líka lágmarks
rask þegar tækinu sé keyrt yfir, en
það er 27 tonn að þyngd þótt vélin
sé reyndar á flotmiklum á beltum.
Framkvæmdatíminn er þá heldur
ekki bundinn við sumarmánuðina.
Á Vestfjörðum og víðar um land, þar
sem sumarið er að jafnaði styttra en
á suðvesturhorninu, þá getur slík vél
greinilega hentað vel. /HKr.
TÆKNI&VÍSINDI
Ketill Björnsson fjármálastjóri og Hörður Gunnarsson, verkefnastjóri Línuborunar, fyrir framan stóru beltavélina. Mynd / HKr.
Hún er sannarlega engin bútasög þessi Marais beltavél sem getur sagað allt að tveggja kílómetra langan skurð í
gegnum alls konar jarðveg á dag.
Vélin gerir allt í einni ferð, sagar og leggur strengi og rör.
Unnið að borun fyrir lagnir.